150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi gerir maður auðvitað kröfu um að fólk standi við það sem það skrifar undir. Icelandair hefur fallist á þá skilmála sem hér eru settir. Það er ekki verið að þvinga lánið upp á fyrirtækið. Þeir fallast á að fá lánið gegn þessum skilmálum. Lánveitendur hljóta að fylgjast með því frá sinni hlið að skilmálarnir séu uppfylltir. Það er auðvitað von okkar að aldrei fari króna úr ríkissjóði vegna þessa, að það reyni aldrei á þessa ríkisábyrgð og það komi aldrei til að lánið verði veitt. Komi til þess hljóta Ríkisendurskoðun og aðrar stofnanir að fylgjast með því, eftir því sem við á, og tímanum vindur fram. Það er mikilvægt að hafa í huga að meginhugmyndin er auðvitað að aldrei þurfi að veita þetta lán.