150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisyfirferð yfir nefndarálitið og langar að fá að spyrja hann aðeins út í ákveðna þætti í álitinu sem ég skil einfaldlega ekki. Ég skil ekki alveg hvernig sé skynsamlegt að punktur 1 í nefndarálitinu komi til framkvæmda, en þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti telur að ekki hafi verið fullreynt hvort hægt hefði verið að auka veðin fyrir lánalínunum með ríkisábyrgð með þeim hætti að ef lánið lenti í vanskilum og framlögð veð dygðu ekki þá myndi veðið t.d. einnig ná til hlutafjár félagsins, hvort sem það er núverandi hlutafé félagsins eða hlutaféð sem verður til staðar eftir að útboði lýkur.“

Hvernig getur það verið góð hugmynd ef félagið er í fyrsta lagi svo illa statt að það dregur á línuna, sem það mun forðast í lengstu lög að gera, og í öðru lagi svo illa statt að það getur ekki borgað af láninu með öllum þeim veðum sem hér eru, eða einhverju sem fólk vill setja þarna inn, að þá sé rétti tíminn til að íslenskir skattgreiðendur eignist hlut í nánast gjaldþrota fyrirtæki? Hvernig getur það verið góð hugmynd? Því að það sem leiðin sem lögð er til í málinu gerir þó er að við þær aðstæður, sem ég veit að ég og hv. þingmaður vonum svo innilega að komi ekki upp og höfum ekki alls ekki trú á að komi upp, er íslenska ríkið ekki hluthafi og aftast í kröfuröðinni — því að fyrirtæki sem svona er ástatt fyrir er með býsna margar kröfur á sig — heldur er íslenska ríkið kröfuhafi og mun framar í röðinni. Ég skil ekki bara með mínum takmarkaða skilningi hvernig þetta getur mögulega verið skynsamleg leið.