150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það breytir engu þó að hv. þingmaður hafi tilkynnt hann ætlaði að skýra þetta vel út. Ég verð að vera honum ósammála um að það hafi tekist. Ég skil ekki að þetta geti verið skynsamleg hagfræði. Hér segir beinlínis að lendi lánið í vanskilum nái veðið til t.d. hlutafjár. Ég las það upp úr nefndaráliti hv. þingmanns hér áðan. Og aftur segir að ef fyrirtækið er þannig statt að það getur ekki greitt afborganir inn á þessa lánalínu, þá erum við væntanlega að ræða að taka upp aftur fjármálastefnu. Þá eru fjármálin þannig stödd að það þarf að endurskoða nánast allt upp á nýtt. En þá vill hv. þingmaður að við tökum veð í nánast gjaldþrota fyrirtæki — afsakið: eigum hlut í nánast gjaldþrota fyrirtæki, í staðinn fyrir að eiga þó þau veð sem hér er gert ráð fyrir. Það væri hægt að reisa nýtt flugfélag nánast á nóinu með þeim vörumerkjum, eignum, lendingarslottum og fleira sem hér er undir, en ekki að vera þá hluthafi í gjaldþrota fyrirtæki.