150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég hef misskilið þingmanninn, hvort hann misskilur veðrétt eða hvernig það er. Maður grípur ekki til veðsins fyrr en maður lendir í vanskilum. Maður lánar gegn veði og svo er ljóst að veðið dugar ekki. Ég vil auka veðandlagið, eða ég vil a.m.k. skoða það, þannig að ef fyrirtæki lendir í vandræðum hefur ríkið rétt á því, ef það þjónar hagsmunum þess, að eignast hlutafélag í staðinn fyrir að eiga tapaða kröfu. Hvað ætlar ríkisstjórnin annars að gera ef Icelandair lendir í vanskilum með þetta lán? Ætlar hún að krefjast gjaldþrots á þessum fyrirtækjum? Það er eina leiðin. En við sjáum líka að ef þessi leið verður ekki farin þá semja fyrirtæki sem lenda í vandræðum oft við lánardrottna sína með þeim hætti að kröfum er breytt í hlutafélag. Það er alþekkt í gjaldþrotarétti að lánardrottnar semja við skuldara sína ef allt fer í óefni varðandi það að fá (Forseti hringir.) hlutafé í stað skuldanna. (Forseti hringir.) Þetta eru engin ný sannindi og ég hvet (Forseti hringir.) hv. þingmann til að kynna sér aðeins veðrétt.