150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:42]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla kannski að höggva í sama knérunn og gert var í andsvari hér á undan. Hv. þingmaður fjallaði í löngu máli í framsögu sinni um skort á veðum í þessu félagi og telur að ríkið eigi að gerast hluthafi, fá hlut í þessu fyrirtæki, gegn þeirri ríkisábyrgð sem verið er að veita og telur það þjóna hagsmunum ríkisins. Ég dreg reyndar mjög í efa að það þjóni hagsmunum efnahagslífsins, samkeppnisumhverfisins og skattgreiðenda almennt. Það væri áhugavert að vita hvort hv. þingmaður hafi velt því fyrir sér. En ég vil líka benda hv. þingmanni á að það er ekki eins og að ríkið sé ekki að eignast hlut í þessu félagi. Það er gert ráð fyrir rekstrarlánum frá ríkisbönkunum tveimur upp á 6 milljarða kr. og þess utan(Forseti hringir.) ætla þessir sömu ríkisbankar að sölutryggja hlutabréfaútboð upp á 6 milljarða líka, ef ég man rétt, og þar með eignast ríkið hlut. (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi velt þessari aðkomu ríkisins fyrir sér.