150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

îfjáraukalög 2020.

969. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það væri heppilegra að nýta lögin um ríkisábyrgð. Þar er Ríkisábyrgðasjóði m.a. falið ákveðið hlutverk sem að mínu mati er ekki nægilega vel sinnt. Ég kom aðeins inn á það að hefði verið farið eftir ríkisábyrgðarlögum, sem hér er kippt úr sambandi, hefði greiðsluhæfi skuldara verið metið með betri hætti en hér er gert. Þá hefði verið lagt mat á áhrif ríkisábyrgða á samkeppni á viðkomandi sviði. Það er ekki gert. Í þriðja lagi hefði Ríkisábyrgðarsjóður, samkvæmt ríkisábyrgðarlögum, lagt mat á þær tryggingar sem lagðar verða fram vegna ábyrgðarinnar. Ég hef verið að tala svolítið um það í dag að þær skortir. Þessa greiningarvinnu vantar en hefði verið unnin ef við hefðum farið eftir lögunum. Þetta er bara stórt mál og ég held að við þurfum að vera á miklu fastari og betri grunni en hér er. Greiningarvinnan var a.m.k. ekki rædd ítarlega á vettvangi fjárlaganefndar enda fengum við heila fimm daga til að fara í þetta mál.