150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Að fara veðleiðina, þ.e. að auka veðandlagið, er ein af leiðunum sem ég hefði viljað skoða betur. Breytirétturinn er önnur leið. Báðar þessar leiðir lúta að því að auka tryggingavernd almennings. Það er hugsunin. Ég tek í raun ekki afstöðu til þess hvor leiðin er betri. Ég held við hefðum átt að ræða þetta aðeins betur og skoða hvort við hefðum getað aukið tryggingavernd gagnvart almenningi. Að sjálfsögðu þarf hluthafafundur, sem er æðsta vald hlutafélags, að ákveða hvort hann þiggi ríkisaðstoð sem er háð harðari skilyrðum en til stóð. Við erum að breyta skilmálunum með því að einskorða þetta við flugreksturinn. Ég ætla ekki að þvinga ríkisaðstoð til Icelandair ef það félag vill hana ekki. En þetta er nokkuð sem ég hefði viljað að við hefðum rætt betur. Ég ítreka að Ríkisendurskoðun segir svipað og ég segi hér. Það er ekki hægt að segja þetta snúist um Samfylkinguna eða stjórnarandstöðu. Ríkisendurskoðun, okkar hlutlausa stofnun, segir: Veðin duga ekki. (Forseti hringir.) Af hverju íhugið þið ekki aðrar leiðir eins og að veðsetja hlutabréfið eða búa til breytirétt ríkinu í vil?