150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég heyrði hv. þingmann nefna þetta í ræðustól, en það síðasta sem hann vitnaði til er ekki að finna í nefndarálitinu, „svo langt sem það nær“. Þess vegna var ég að velta fyrir mér hvort þetta hefði bæst við eftir yfirlýsingu félaga hans í þingflokki Pírata. Mér finnst hv. þingmaður draga ranga ályktun af því að rök félagsins séu sannfærandi. Hann dregur þá ályktun að það þýði að ekki þurfi ríkisábyrgð. Á meðan finnst mér vanta inn í jöfnuna að rökin séu sannfærandi og að mögulegir hluthafar séu til í að taka þátt einmitt vegna ríkisábyrgðarinnar, að heildarpakkinn líti út eins og raun ber vitni vegna mögulegrar ríkisábyrgðar en ekki eins og hún komi ekkert að þessu að fram að því.

Þá langar mig að spyrja út í annað í yfirlýsingu hv. þingmanns Pírata þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ef gjaldþrot félagsins virðist óumflýjanlegt getur ríkið gripið inn í og eignast ráðandi hlut í því, t.d. með því að kaupa hlut lífeyrissjóðanna og tryggt félaginu fé til að viðhalda lágmarkssamgöngum til og frá landinu eins og erlend fordæmi eru fyrir.“

Ég skil þetta ekki öðruvísi en svo að talað sé um það sem einn af mögulegum kostum sem ætti að skoða, þannig að ef illa færi ætti íslenska ríkið að kaupa hlut núverandi hluthafa, og þá væntanlega að bæta því við sem þarf til að félagið sé rekstrarhæft, því að augljóslega vantar það fjármuni ef það er komið í þá stöðu.

Þar sem ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um að allt sé reiknað í þaula, að ferlar séu réttir og allar sviðsmyndir hafi verið skoðaðar, langar mig að spyrja hann: Hefur hann velt því fyrir sér hvað sú leið sem hv. þingflokkur Pírata leggur til myndi kosta ríkissjóð? Er óvarlegt að ætla að hún myndi kosta tugi milljarða króna? Og af hverju leggur hv. þingflokkur Pírata til slík útgjöld?