150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andvirði Icelandair er núna eitthvað í kringum 5 milljarðar. Eignarhlutur lífeyrissjóðanna er um það bil 40–50% þannig að kostnaðurinn við að kaupa af þeim væri í mesta lagi það miðað við núverandi aðstæður. Önnur leið sem ég hef nefnt er alþjónustuleið, svipuð þeirri sem við höfum farið í póstþjónustunni, (KÓP: En hlutafjárútboð …?) Þegar og ef við komumst á þann stað að grípa þurfi til ríkisábyrgðarinnar er fyrirtækið væntanlega ekki mjög verðmætt lengur því að það er búið að brenna upp allt fé sem lagt var inn. Ef þetta tekst hins vegar þurfum við ekkert að hafa áhyggjur.

Eins og ég sagði áðan er ríkisábyrgðin ekki fyrir Icelandair. Hún er að kröfu bankans, hún er fyrir bankann, hún er veitt fyrir láni bankans. Þess vegna þarf Icelandair ekki ríkisábyrgð vegna áætlana sinna gagnvart fjárfestum, fagfjárfestum o.s.frv. Við erum ekki með umsagnir frá neinum slíkum um vægi ríkisábyrgðar í öllu þessu. Ég tek ákvörðun út frá þeim gögnum sem liggja fyrir. Ég hef ekki verið að skoða þetta mál síðan í mars eða apríl eins og fjármálaráðuneytið. Ég hef skoðað málið í rétt um tvær vikur. Þau gögn sem við höfum í höndum sem kjörnir fulltrúar segja mér alla vega að engin þörf er á þessari ríkisábyrgð. Hlutafjárútboðið og áætlun Icelandair ættu að geta staðist út frá skilmálum og framsetningu fagfjárfesta. En út frá skilmálum og ábyrgð stjórnvalda? Nei. Hvort tveggja getur verið satt.