150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:33]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna með nefndaráliti sem hann birti hér eftir umræðu og umfjöllun fjárlaganefndar um þetta mál sem hann hefur tekið þátt í af sinni trúmennsku eins og hann er þekktur fyrir. Ég vil aftur á móti mótmæla því, sem hann sagði í ræðu sinni áðan og í nefndarálitinu, að ríkisábyrgðin sé að kröfu bankanna. Hvergi hefur það komið fram í umfjöllun nefndarinnar. Ég bið hann þá að rifja það upp fyrir mér hvar það hefur komið fram.

Ég vil hins vegar draga það fram í þessari umræðu, og ég held að það sé nauðsynlegt á þessu stigi hennar, að ríkisábyrgðin er þrautavaraleið. Hún er til að tryggja hér til langs tíma rekstrarhæfi þessa félags, sem er okkur eins mikilvægt og vel hefur komið í ljós í umfjöllun nefndarinnar, ef mönnum hafði verið það óljóst áður, til að verja þau framleiðslutæki sem við köllum svo, þ.e. þá stöðu að við getum átt kröftuga viðspyrnu í efnahagslífinu þegar því ástandi sem nú ríkir um allan heim linnir.

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka það skýrt fram í andsvari til hv. þingmanns hér að við viljum að hér verði virk samkeppni í millilandaflugi. Þess vegna eru þær breytingar sem meiri hluti fjárlaganefndar beitti sér fyrir á þeim skilmálum, sem ég bið hv. þingmann um að fjalla um í andsvari hér, einmitt til þess að taka undir þær áhyggjur sem komu fram hjá mörgum umsagnaraðilum.

Aftur á móti vil ég líka draga það fram að staða þessa flugfélags var allt önnur en erlendra flugfélaga sem er verið að draga inn í þessa umræðu, sem ég held að sé rétt að við tökum líka utan um.