150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:00]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Ég vil bara, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fjallaði um í andsvörum, mótmæla því að við séum að skilja hér eftir galopna heimild. Ég ætla að lesa upp úr skilmálum ríkisábyrgðarinnar sem fylgja nefndarálitinu og undirstrika það, virðulegur forseti, að það var fyrir atbeina hv. fjárlaganefndar — í það minnsta meiri hluta hennar, og reyndar allrar nefndarinnar, vil ég meina — sem var hnykkt á því sérstaklega í skilmálunum, til hvers ábyrgðin væri veitt. Í skilmálunum segir, með leyfi forseta:

„Lántaka skal eingöngu heimilt að nýta lán samkvæmt samningunum til að standa skil á almennum rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri lántaka til og frá landinu í samræmi við rekstraráætlun félagsins. Til almenns rekstrarkostnaðar teljast m.a. laun og launatengd gjöld, rekstraraðföng, leiga, önnur rekstrartengd gjöld, samningsbundnar afborganir og vaxtagreiðslur í samræmi við rekstraráætlun, olíuvarnir vegna vöru- og þjónustuviðskipta, endurgreiðslur til viðskiptavina, og reglubundið viðhald. Óheimilt er að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri, eða ráðstafa því með öðrum hætti, svo sem til dótturfélaga í samstæðu lántaka sem ekki eru í flugrekstri á Íslandi til og frá landinu.“

Það getur ekki verið mikið skýrara, virðulegi forseti, og ég spyr hv. þingmann: Hvað í veröldinni er óljóst? Heimildin til ríkisábyrgðar fyrir Icelandair Group er í nefndaráliti okkar og í þeim skjölum sem við birtum í því eru skilmálarnir skýrir. Þeir fylgja nefndarálitinu sem lögskýringargagn og það er algjörlega geirneglt að með þessum hætti verði gengið frá málinu. Ég held, virðulegur forseti, að þessi afstaða sé eingöngu fjarvistarsönnun til að taka afstöðu í þessu mikilvæga máli.