150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að halda mikið lengra áfram með þetta. Ég segi einfaldlega: Þetta er ákaflega skýrt tekið fram og þó að millilandaflug Air Iceland Connect sé í þessu sambandi dregið upp þá er það líka millilandaflug til og frá landinu. Við verðum að ætlast til þess, og við ætlumst til þess, að þeir skilmálar og þau ströngu skilyrði sem veitt eru fyrir þessari þrautavaraábyrgð séu fullnustuð þó að þetta atriði geti átt við þetta millilandaflug.

Ég ætla hins vegar að segja, virðulegur forseti, að ég fagna því sem hv. þingmaður sagði í framsögu sinni, að hið opinbera ætti ekki að fjárfesta í atvinnurekstri og leggja fram hlutafé. Þess vegna áttaði ég mig ekki alveg á því þegar hv. þingmaður fór síðan yfir í að velta fyrir sér hvort það væri ekki betra að ríkið eignaðist með einhverjum hætti hlutafé í félaginu. Ég náði ekki alveg að tengja, ég bið hv. þingmann að útskýra það betur fyrir mér.