150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:06]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Nú er ég ekki lögfræðilega menntaður en þingmaðurinn er það og málið snýr að því að taka veð í hlutafé eins og komið hefur fram í umræðum hér í dag. Sem leikmaður á vellinum hélt ég satt að segja að ekki væri hægt að taka að veði hlutafé á markaði hjá eigendum hlutafjár. Mig langar að spyrja út í það hvað þingmanninum finnst um þetta. Eins og ég skildi hana áðan þá er það hluti af málflutningi hennar að taka veð í hlutafé fyrirtækisins.

Við höfum staðið í þessu máli um ríkisábyrgð í níu daga. Þetta hefur verið mikið ferli og ég var mjög sáttur við það hvernig við tókum á málum varðandi skilgreiningar á Icelandair Group og síðan aftur á Icelandair og flugrekstrinum. Að mínu viti, en ég þekki aðeins til stærðanna í rekstri þessara félaga, er Air Iceland Connect smáfyrirtæki miðað við Icelandair Group eða Icelandair sem einstakt fyrirtæki, dótturfélag inni í móðurfélaginu. Það hefur komið fram á fundum nefndarinnar að Icelandair er með um 75% af veltu Icelandair Group þannig að ég hélt að við værum búin að ná svolítið utan um þessa þætti í þessu mikilvæga máli og að þetta hefði verið fullunnið. Ég tel að við höfum unnið mjög gott starf varðandi þessa þætti í þessu umhverfi, hvernig við settum inn skilmálabreytingar og annað varðandi lánalínuna. Þetta eru vangavelturnar sem ég vildi kannski byrja á.