150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er að velta því upp hvort við getum eignast hlut í félaginu í stað þess að eiga ekki neitt. Þegar farið verður að nýta lánalínurnar, sem ég vona að komi ekki til, bendir það til þess að félagið sé það illa statt að það þurfi jafnvel enn frekari bjargráða við. Þá vildi ég nú frekar fá hlut í félaginu upp á 15 milljarða en að fá ekki neitt. Það er ekkert sem bannar það frekar en verkin segja til um alls staðar í kringum okkur. Þetta er bara skilmálaatriði sem getur komið inn í samninginn sem hér um ræðir.

Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir, við höfum bara unnið vel. En við erum náttúrlega ekki öll eins, enda átta ólíkir flokkar hér á þingi, og sjáum hlutina kannski ekki öll sömu augum. Hv. þingmaður bendir réttilega á að Air Iceland Connect er pínulítill partur inni í móðurfélaginu en það breytir ekki þeirri staðreynd, eins og ég sé þetta og eins og þetta er orðað í lögskýringargagninu sem felst í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, að í raun er ekki verið að tala um neitt nema um flugrekstur til og frá landinu. Það er ekkert skilyrt hvaða félag það er. Það er ekki einu sinni spáð í það hvort hægt sé að búa til fleiri dótturfélög sem gætu farið að fljúga til og frá landinu og hugsanlega fallið undir nákvæmlega þetta. Mér finnst ekki góður bragur á því, þegar okkur er í lófa lagið að hafa hlutina skýra, að setja þá ekki bara niður á blað. Það er engin ástæða til að þurfa að klóra í lögskýringargögn og nefndarálit þegar við erum löggjafinn og getum einfaldlega sett þær reglur og samþykkt sem við viljum að séu skýrar og skilyrtar. Það er bara þar sem ég er.