150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég hafði ekki hugsað mér og aldrei reynt að setja það þannig upp að þetta væri eitthvert veð upp á virði félagsins, eins og það er metið í dag, upp á 5,6 milljarða. Við hefðum hugsanlega getað keypt það í stað þess að vera að setja 15 milljarða kr. ríkisábyrgð á félagið. En við trúum því öll í fjárlaganefnd að þetta félag okkar byggi á sterkum grunni og sé það öflugt að þegar þessum heimsfaraldri lýkur muni það blómstra á ný. Það sem ég er að reyna að segja er að ef til þess kemur að félagið þurfi að ganga á ríkisábyrgðina er ríkisábyrgðin 15 milljarðar kr. Ef félagið þarf að ganga á ríkisábyrgðina er það þegar í mjög vondum málum. Þá vil ég alveg eins að ríkið eignist þann hluta af því að það mun hvort sem er byggja félagið upp, eignist þann hluta sem það þarf að láta af hendi rakna, hvort sem það eru 5 milljarða, 10 milljarða, eða hve mikið af lánalínunni það verður sem fyrirtækið þarf að nýta sér, og taki þá utan um það með þeim réttindum og þeim skyldum sem því fylgja. Það er eiginlega sú hugsun sem ég var að reyna að koma frá mér.