150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:33]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil blanda mér í umræðu um það stóra mál sem hér er til umræðu, fjáraukalög um heimild til veitingar ríkisábyrgðar fyrir Icelandair Group og nefna kannski helst tvo, þrjá punkta sem mér finnst ástæða til að hnykkja á í þessari umræðu þegar hingað er komið. Framsögumaður meiri hluta fjárlaganefndar, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, fór rækilega yfir nefndarálit okkar og við getum vísað til þess þar sem við reynum að draga saman þau rök sem liggja að baki því að við komumst að þessari niðurstöðu, sem var ekki alveg sjálfgefin, og á margan hátt get ég vel tekið undir margt af því sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði í ræðu sinni áðan um hversu margra þátta þarf að horfa til þegar komist er að þessari niðurstöðu.

Við kölluðum sérstaklega eftir því hvaða undirbúningsvinna hefði farið fram og hvaða greiningar verið gerðar til þess að komast að þessari niðurstöðu. Við fengum skýr svör um það og þau eru að hluta til talin upp í nefndaráliti okkar, ég ætla ekki að reifa þau sérstaklega hér. Það var í sjálfu sér augljós niðurstaða að því leyti að sú leið sem hér er lögð til var talin vera sú sem væri áhættuminnst í þessu tilfelli fyrir ríkissjóð og líka sú leið sem væri kannski áhrifaríkust fyrir félagið til að ná að koma krafti í það á nýjan leik. Ég sagði það í andsvari hér fyrr í dag, hæstv. forseti, að þetta tiltekna flugfélag væri ekki alveg sambærilegt við flugfélög sem hafa verið nefnd hér í umræðunni í dag sem hafa einhverju eða öllu leyti fallið í ríkiseigu því að félagið var ágætlega fjármagnað að lausafé þegar þessi kreppa eða þetta ástand kom upp og það hefur fleytt því áfram á þennan stað. Við áttum síðan ágætt ferðasumar í sumar en því miður sjáum við ekki fyrir endann á því ástandi sem nú ríkir og þess vegna er ástæða til þess að búa sig undir framtíðina með þessum hætti.

Mikið hefur verið rætt hér um hlutafjárleið, að ríkið stígi inn á einhvern hátt sem hluthafi. Kannski er samandregið hægt að draga það út úr þeim greiningum og skoðunum sem voru unnar í sumar á aðkomu hins opinbera eða ríkisins að aðstoð við þetta félag að það væri áhættumesta leiðin. Þess vegna erum við í þessum sporum hér í dag. Við horfum mjög sterkt til þess og þreytumst ekki á að hnykkja á því að þetta er algjör þrautavaraleið í þessu tilfelli, þrautavaraleið sem við vonumst til að ekki þurfi að reyna á. Það er kannski annar punkturinn, virðulegur forseti, sem ég vil draga sérstaklega fram í umræðunni á þessu stigi, að fagleg og ítarleg vinna leiddi okkur að þessari niðurstöðu.

Hitt atriðið — sem vel kom fram í umfjöllun nefndarinnar, og rétt er að gera það að umfjöllunarefni, þar sem verið er að nota orð eins og kerfislega mikilvæg fyrirtæki og við vitum kannski ekki alltaf hvað það þýðir — er einfaldlega að þau viðbrögð ferðaþjónustuaðila og annarra fyrirtækja sem veittu umsögn og hafa tekið þátt í almennri umræðu um þingmálið á undanförnum dögum og vikum hafa algerlega dregið fram mikilvægi starfsemi fyrirtækisins, því að þetta stóra félag og þetta stóra fyrirtæki er í raun og veru burðarásinn í þeirri ferðaþjónustu sem við þekktum hér og viljum að rísi sem hraðast á nýjan leik. Sú mynd sem fulltrúar Isavia drógu upp hjá fjárlaganefnd þegar þeir komu til að fjalla um þetta þingmál var nefnilega áhugaverð, hvernig flugrekstur eða ferðaþjónusta getur farið hratt af stað þegar tilteknu ástandi linnir. Þess vegna trúum við því að með þessari aðgerð getum við náð öflugri viðspyrnu mjög fljótt. Hún skiptir okkur gífurlega miklu máli. Stundum er í umræðunni um fjármálastefnu talað um hvernig þessi snögga kreppa sem á okkur skall lítur út, hvort hún er V-laga eða U-laga eða jafnvel þorratrogs-löguð. Þær myndir sem Isavia dró upp fyrir okkur sýndu mjög sterkt að eftir svona ástand rýkur ferðavilji mjög upp á nýjan leik.

Það er síðan ábyrgðarhluti okkar að öll sú aðkoma sem við ræðum hér að þessu fyrirtæki verði ekki heldur til að skemma möguleika annarra á þessum markaði. Ég vil bara draga það fram, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að hér væru samkeppnisaðilar að fjalla um þetta tiltekna þingmál — og hafa áhyggjur af samkeppnisþætti og hvernig ríkisaðstoðin, ef til hennar verður gripið, muni geta haft áhrif á samkeppnisstöðu þeirra í framtíðinni — voru allir eða næstum allir sammála um að Icelandair ætti að hjálpa með þessum hætti. Þar var, segi ég, dregið fram mikilvægi þess fyrirtækis fyrst og fremst. Það vildi ég að kæmi fram hér í umræðunni, virðulegi forseti, þegar hingað er komið því að þetta eru þau atriði sem voru þungamiðjan í okkar umfjöllun um hvers vegna sú leið var farin og síðan gagnrýni á aðstoðina, að hún gæti leitt til markaðsröskunar. Það er þess vegna sem fjárlaganefnd beitir sér fyrir því að lánaskilmálum ríkisábyrgðarinnar verði beitt.

Við megum heldur ekki gleyma því að stjórnendur þessa fyrirtækis hafa á undanförnum vikum og mánuðum unnið gríðarlega mikið starf til að efla félagið á nýjan leik. Farið hefur verið í gegnum samninga við birgja og farið niður í kjarasamninga sem hafa verið dregnir inn í þessa umræðu líka og fleiri atriði sem tilheyra rekstrinum sem gera félagið rekstrarhæfara til lengri tíma.

Ég vil aðeins segja það í lokin, virðulegur forseti, að ég get með ágætri samvisku stutt þetta mál og við leggjum til að það verði samþykkt. Við þekkjum alveg áhyggjurnar og röskunina sem mögulega leiðir af því en það er þá verk að taka á því í framhaldinu og til þess höfum við eftirlitsstofnanir og þá skilmála sem við ákváðum að birta með þessu þingmáli. Í mínum huga er það tengistöðin í Keflavík og öll sú uppbygging sem þar er, sá kraftur sem felst í leiðakerfinu sem þangað liggur, sem verður það drifafl hagvaxtar sem við þurfum á að halda á næstu mánuðum.