150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:41]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Ég hygg að við séum á svipuðum stað með það að þetta er ekki endilega auðvelt mál þó að ég hafi heyrt þingmanninn segja að honum líði vel með það. Auðvitað vonum við að niðurstaðan verði sú að okkur líði öllum vel með þá ákvörðun sem ég held að liggi í loftinu að verði tekin hér í kvöld og að þetta dugi til að halda þessu mikilvæga fyrirtæki lifandi, ekki bara fyrir ferðaþjónustuna og það fólk sem starfar þar heldur fyrir samfélagið allt.

Þar sem hv. þingmaður er varaformaður í fjárlaganefnd og þekkir málin mjög vel, en ég missti af upphafi umræðunnar, langar mig að bera fram nokkrar spurningar. Í áliti meiri hlutans á bls. 3, þar sem talað er um helstu valkosti og áhættuþætti við veitingu ríkisábyrgðar, kemur fram að það sé möguleiki að Icelandair verði áfram til í núverandi mynd. Það er þá annaðhvort leið 1.A, áformin um ríkisábyrgðina, eða valmynd 1.B, að stjórnvöld auki aðkomu sína, hvort sem er í formi hlutafjár eða láns. Síðan segir að niðurstaðan hafi verið sú að eingöngu leiðin með ríkisábyrgðina væri fær og því erum við hér.

En ég velti því fyrir mér hvort staðan sé ekki raunverulega sú að verið sé að færa bæði leið A og B í ljósi þess hve ríkið spilar stórt hlutverk sem lánveitandi, bæði gamall og nýr, og einnig í ljósi þess hve lífeyrissjóðirnir okkar spila stórt hlutverk. Þó að vissulega sé rétt að það sé eingöngu lífeyrissjóður opinberra starfsmanna sem er beinlínis tengdur ríkinu, þá eru þetta allt samofnir hagsmunir.

Spurningin er, svo að ég komi mér að henni, hvort því hafi verið velt upp á einhvern hátt að setja stífari skilyrði um hversu langt ríkið ætti að stíga þarna, annars vegar sem lánveitandi og hins vegar sem hluthafi, (Forseti hringir.) og hvort skilyrðin ættu einhvers staðar að snúa að aðkomu einkaaðila til að létta aðeins áhættunni af íslenskum almenningi.