150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:43]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar fyrirspurn. Þótt ég hafi orðað það þannig að mér líði vel að mæla með samþykkt þessa frumvarps þá ætla ég nú bara að vera hreinskilinn og segja: Mér leist ekkert á það í upphafi. En við höfum farið í gegnum þetta með þessum hætti og við erum sannfærð um að við séum að leggja hér til ábyrga leið, áhættuminni leið. Og það er rétt, sem hv. þingmaður segir, og við skulum ekkert loka augunum fyrir því, að hið opinbera er með einum eða öðrum hætti að taka mikla áhættu, t.d. með lánalínum ríkisbankanna og síðan sölutryggingunni þar.

Þá vil ég rifja upp, virðulegi forseti, að við höfum hér regluverk sem aðskilur aðkomu stjórnmálanna að rekstri bankanna, þar sem armslengdarsjónarmið gilda, þannig að ég treysti því að bankarnir hafi tekið þessa ákvörðun sína á viðskiptalegum forsendum. Við verðum að ætla þeim það. Við höfum ekki lengur puttana í ákvörðunartöku bankanna eins og var í gamla daga, sem ég man svo sem ekki eftir þó að aldraður sé, hef ekki reynslu af því. Um það atriði sem hv. þingmaður nefnir, hvort við hefðum átt að takmarka það með einhverjum hætti, vil ég aðeins segja að skilmálar ríkisábyrgðarinnar um hvernig draga má á lánalínuna eru mjög takmarkandi þáttur. Hökti reksturinn eða gangi áætlunin ekki eftir með þeim hætti sem við erum að vonast til þá reynir á þá skilmála.

Ég ætla líka að segja í þessu sambandi að sú næmnigreining sem við fengum kynningu á þýddi reyndar líka að verulega mikið frávik þyrfti svo á það reyndi. Nei, við ræddum ekki frekari takmarkanir. Við lokum ekki augunum fyrir mikilli aðkomu hins opinbera að fyrirtækinu, en ég vísa til skilmálanna sem birtir eru með þessu skjali, um það hvernig ganga má á þetta lán. Þar eru vörður sem veita miklar skorður.