150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég verð að segja eins og er að það er ákveðinn léttir að heyra að hv. þingmaður hafi farið svona í gegnum þetta ferli. Ég veit að það eru fleiri sem hafa verið neikvæðir í upphafi en eru komnir á þennan stað núna. Nú er ekki langt síðan annað flugfélag hér á landi gekk í gegnum miklar hremmingar en það er WOW air. Þar fór illa. Síðasta sumar var undirlagt fréttum af kapphlaupi stjórnenda þar við kröfuhafa til að lækka, afskrifa, semja upp á nýtt um skuldir til að eiga möguleika á ríkisaðstoð eða björgun. Fréttir bárust af því að einhver slíkur árangur hefði náðst en það dygði ekki félaginu til bjargar. Þá komum við að því, og ég bið bara hv. þingmann að leiðrétta mig, að tilfinning mín er sú, og ég hef svo sem verið að grafast fyrir um það, að samningar Icelandair við kröfuhafa í sumar hafi mestmegnis snúist um frystingu á afborgunum eða einhvers konar aðlögun að afborgunum miðað við breytt sjóðstreymi frekar en beinlínis lækkun skulda.

Það kemur líka fram í þessum gögnum um félagið, sem gerir þetta svolítið erfiðara allt saman, að veðið sem ríkið getur sett fyrir þessari ábyrgð er ekki mjög traust af því að öðru leyti er Icelandair skuldsett upp í topp. Þá velti ég fyrir mér, vegna þess að tiltölulega snemma í ferlinu var komin upp þessi orðræða um að ríkisábyrgðin kæmi, hvort fýsilegra hefði verið að halda að sér höndum, sýna ekki á þau spil svo snemma og reyna að ná pressu á slíka samninga. Er það eitthvað sem hv. þingmaður telur að við hefðum getað náð með eilítið meiri klókindum verandi þessi stóri aðili í þessu mikilvæga fyrirtæki?