150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:48]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við birtum það í nefndaráliti okkar, og framsögumaður nefndarálits ræddi það mjög ítarlega í framsögu sinni, hvernig ríkið tók á þessum viðræðum frá upphafi og setti málið í ákveðinn farveg. Það var með þeim hætti að stökkva ekki strax til heldur setja félagið sjálft í þá stöðu að taka utan um sín mál áður en til þess kæmi að það færi til ríkisins og bæði um aðstoð. Aðstoð ríkisins kemur eingöngu til í kjölfarið á því.

Ég ætla ekki að fullyrða um samninga félagsins við lánardrottna sína, birgja eða annað, en það kom fram á fundum nefndarinnar að afskriftir væru óverulegar eða litlar, ég get staðfest það sem hv. þingmaður sagði um aðlögun og greiðslufrest og slíka hluti.

Spurningin var hvort við hefðum getað beitt meiri klókindum og ég held að henni verði best svarað með því að í umfjöllun fjárlaganefndar, og í samtölum við embættismenn og þá sem að málum hafa komið, fengum við ágæta mynd af því hvernig þetta ferli var og ég held að haldið hafi verið af mikilli ábyrgð á áhættu almennings á því að stíga inn í félagið með þessum hætti. Síðan hefur umræðan verið um það af hverju þessi leið hafi ekki verið farin eða hin o.s.frv., en ég vil bara segja, þó að ég sé ekki að spá neinu, að hlutafjárútboðið núna mun gefa félaginu það heilbrigðisvottorð sem það þarf fyrir þær áætlanir og fyrir þær aðgerðir sem þar hafa verið undirbúnar á liðnum vikum og mánuðum. Fyrr kemur ekki til þess að þessi ábyrgð virkist og síðan eru aftur strangir skilmálar til þess að hægt sé að draga á þessar lánalínur.