150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi míns máls þakka fjárlaganefnd fyrir góð störf í þessu mikilvæga og stóra máli. Það hefur verið mikið álag á nefndinni undanfarna daga, bæði þar sem fjallað hefur verið um fjármálastefnu og svo þessa ríkisábyrgð fyrir Icelandair sem er stórt og mikið mál. Ég er þeirrar skoðunar að nefndin hafi unnið gott starf. Mörgum spurningum var svarað og nefndarmenn voru mjög meðvitaðir um að mikilvægt væri að fá allt upp á borðið hvað þessa fyrirhuguðu lánsheimild varðar og ráðuneytið og fleiri aðilar voru kallaðir oftar en einu sinni fyrir nefndina. Ég er þeirrar skoðunar að þeim spurningum sem við lögðum fram og þeim vangaveltum, og í sumum tilfellum efasemdum, hafi verið svarað með góðum hætti. Við megum heldur ekki gleyma því að málið hefur fengið góða vinnu í ráðuneytinu og eins og kemur fram hafa viðræður staðið alveg frá því skömmu eftir að faraldurinn skall á og ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi verið vel unnið.

Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að sitji ríkisvaldið hjá aðgerðalaust þá getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar. Nú horfum við hugsanlega upp á 10% atvinnuleysi um áramótin og á Suðurnesjum er það komið í 20%. Ég nefndi Suðurnesin sérstaklega og það er í Reykjanesbæ komið í 20%. Fjölmargir starfa á vegum þessa fyrirtækis þar. Svo dæmi sé tekið störfuðu árið 2019 um 400 manns í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli og auk þess hafa fjölmargar konur starfað hjá fyrirtækinu. Á Suðurnesjum er ein af hverjum fimm konum atvinnulaus þannig að við megum alls ekki við því að hér sitji ríkisvaldið hjá og fyrirtækið verði gjaldþrota. Það er afar mikilvægt að koma í veg fyrir það og að mínu mati og okkar í Miðflokknum er það áhættuminni leið að veita þessa lánsheimild, þessa ríkisábyrgð, og Miðflokkurinn styður þetta mál.

Við þekkjum það að árið 2020 er versta ár í sögu flugrekstrar í heiminum. Undanfarnir mánuðir hafa verið gríðarlega erfiðir í þeim rekstri og ég sagði það í fyrri umræðu um þetta mál að það væri ákveðið afrek að félagið hefði staðið af sér þá storma sem hafa geisað undanfarna mánuði en núna er komið að því að fara í fjárhagslega endurskipulagningu og afla félaginu nýs hlutafjár til að hægt sé að tryggja áframhaldandi rekstur þess. Að sjálfsögðu er aðkoma ríkisins að þessu máli háð því að fullnægjandi árangur náist í þeim efnum. Það er rétt að hafa í huga að í því hafa náðst mikilvægir áfangar sem styrkja félagið í komandi hlutafjárútboði. Samið hefur verið við allar flugstéttir og þeir samningar gilda til 2025. Félagið hefur einnig fengið greiddar skaðabætur frá Boeing-flugframleiðandanum vegna svonefndra Max-véla og auk þess hefur félagið náð mikilvægum samningum við lánveitendur. Allt skiptir það verulegu máli.

Það er alveg ljóst að fyrirtækið hefur unnið hörðum höndum að því að bæta stöðu sína vegna þessa utanaðkomandi áfalls. Áttum okkur á því að þetta er utanaðkomandi áfall, veirufaraldurinn. Þess vegna er afar mikilvægt að það hlutafjárútboð sem er fram undan gangi vel, að fjárfestar vilji koma að rekstri flugfélagsins á erfiðum tímum. Það er ekkert sjálfsagt að svo sé en það er hægt að liðka til í þeim efnum. Verið er að gera það með þessari lánsheimild ríkisins eða lánalínu, eins og stundum er sagt, og er eiginlega nýyrði í fjármálageiranum. En þessi lánafyrirgreiðsla er ætluð til þrautavara, það hefur komið skýrt fram og alls ekki víst að hún verði nýtt. Vonandi þarf ekki til þess að koma og samkvæmt þeim áætlunum sem fyrirtækið hefur lagt fyrir nefndina þá getur það farið inn í sumarið 2021 án þess að draga á þessa lánsheimild ríkisins. Það er einnig mjög mikilvægt og vonandi sjáum við fram á bóluefni og að veirufaraldurinn renni sitt skeið á enda á næstu mánuðum og í byrjun næsta árs og þá er ekkert því til fyrirstöðu að það gangi hratt að endurreisa ferðamannaiðnaðinn og þann mikilvæga þátt í þeim iðnaði sem er að sjálfsögðu flugreksturinn og flug til og frá landinu.

Og síðan er rétt að hafa í huga að lausafjárstaða félagsins var sterk fyrir veirufaraldurinn. Það er mikilvægt að hafa þetta allt saman í huga frá sjónarhóli skattgreiðenda þegar við ræðum þessa lánsheimild sem er upp á 15 milljarða kr. Hún er nauðsynleg til að það takist að safna þessu fé og þetta er traustsyfirlýsing að því leyti til að þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í útboðinu sjái að verið sé að byggja undir fyrirtækið þannig að það sé í stakk búið til að hefja öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum er lokið. Stjórnvöld tækju mikla áhættu ef þau sætu hjá í þessu máli og það yrði afar slæmt fyrir þjóðarbúið ef fyrirtækið yrði gjaldþrota. Við vitum að umfang þess er gríðarlega mikið í íslensku hagkerfi og það er tæknilega flókið að endurreisa gjaldþrota félag og margt tapast í því ferli.

Auk þess er mikill mannauður í þessu fyrirtæki. Innan þess voru árið 2019 4.700 stöðugildi og fyrir utan það eru fjölmörg fyrirtæki þannig að mörg afleidd störf fylgja þessu einnig. Við erum því að tala um þúsundir starfa í þessu árferði þegar atvinnuleysi er að ná hæstu hæðum sem er að sjálfsögðu mjög alvarlegt. En við Íslendingar erum líka mjög háðir flugsamgöngum, meira en margar aðrar þjóðir, og við eigum mikið undir því, og eiginlega allt, að hér ríki traustar og samfelldar samgöngur fyrir vöru- og fólksflutninga. Þannig að hér er, herra forseti, um ríka samfélagslega hagsmuni að ræða og beina fjárhagslega hagsmuni fyrir fjölda launafólks og fjölskyldur og fyrirtæki.

Það hefur komið fram í þessari umræðu að ríkið ætti hugsanlega að eignast hlutafé í fyrirtækinu eða jafnvel að taka það yfir. Hlutafjárleiðin hefur verið rædd töluvert hér og m.a. af hálfu Samfylkingarinnar. Í fyrsta lagi er vil ég segja að sú leið er áhættusöm, sú áhættusamasta í þessu máli. Síðan er það að saga opinbers eignarhalds í flugfélögum hefur ekki verið uppörvandi, það sýnir reynslan frá nágrannalöndunum. En ég ætla að víkja aðeins nánar, herra forseti, að hlutafjárleiðinni, hvort það sé rétt að ríkið ætti að taka við hlutafé í félaginu gegn þessari fjárhagsaðstoð. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki skynsamlegt. Bent hefur verið á að það sé áhættusamasta leiðin og það gildir almennt þegar verið að leggja fjármuni í fyrirtæki sem þetta. Kostnaður ríkisins yrði meiri ef síðan ætti að endurreisa félagið í kjölfar þess að það yrði gjaldþrota.

Síðan hefur verið rætt um lán með svokölluðum breytirétti. Það hefur verið nefnt hér líka sérstaklega. Það er leið sem er blanda láns og hlutafjár. Þá yrði fyrirtækinu eða félaginu heimilað að taka lán með þeim skilmálum að greiða mætti lánið með útgáfu á hlutafé til kröfuhafa. Þetta er almennt kallað breytiréttur og þýðir að lánið er ekki trygging fyrir greiðslu á skuld. Ef ríkið veitti t.d. í tilfelli Icelandair lán sem mætti breyta í hlutafé en vanskil yrðu, þá væri það mjög hagstætt fyrir félagið og ívilnandi fyrir kröfuhafana sem fengju meira í sinn hlut ef félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með slíkri aðgerð yrði kostnaður ríkisins af því að endurreisa félagið meiri. Það má líkja þessu við að ef félagið lendir í erfiðleikum við að endurgreiða lánið ákveði ríkið að lán þess skuli vera víkjandi gagnvart öðrum lánum. Þetta er sem sagt áhættusöm leið, nema ríkið sætti sig við að fjármunir þess yrðu til lengri tíma bundnir í rekstri félagsins og það er ekki það sem við leggjum upp með hér. Markmiðið er að endurheimta þá fjármuni sem fyrst ef þeir verða nýttir. Þannig hefur þessi leið ótvíræða kosti umfram hlutabréf. Horfum líka á það hvaða stöðu félagið stendur frammi fyrir. Það þarf jú nýtt hlutafélag og sem félag skráð á hlutabréfamarkaði gæti það haft neikvæð áhrif á vilja kröfuhafa til að skrá sig fyrir nýju hlutafé og annarra til að kaupa hlutafé í félaginu í kjölfarið ef ríkið býr yfir umtalsverðri heimild til að fá nýtt hlutafé gefið út í félaginu á grundvelli hins svokallaða breytiréttar. Ástæða þess væri sú að hluthafar væru í óvissu um það hvort til þess komi að ríkið breyti skuldum í hlutafé og þynni þar með út hlutdeild þeirra í félaginu. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga og þess vegna hugnast okkur ekki þessi hlutabréfaleið, að ríkið eignist hlutabréf í fyrirtækinu. Það er rétt að halda þessu til haga, herra forseti, vegna þess að það skiptir verulegu máli að þetta hlutafjárútboð gangi vel fyrir sig og það er það sem við stefnum öll að.

Ég vil auk þess aðeins koma inn á að skipaðir voru tveir vinnuhópar á vegum stjórnvalda til þess að fara yfir þessar tvær stöður sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. að Icelandair, flugfélagið, verði áfram í núverandi mynd eða fari í þrot. Þessu var velt upp og niðurstaðan er sú að fara þá leið sem hér er lagt upp með. Komi til þess að fyrirtækið verði gjaldþrota þá er ekki vænlegt fyrir stjórnvöld að stofna nýtt félag. Það er mjög flókið að gera það og fjölmörg leyfi og réttindi og annað slíkt kemur þar við sögu.

Auk þess langar mig að víkja aðeins að veðum. Rætt hefur verið um að veðin standi ekki undir lánsheimildinni og þau séu haldlítil. Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson nefndi að hugsanlega væri ekkert verðgildi í þessum veðum. Því er ég algjörlega ósammála. Það eru þarna veð eins og lendingarheimildir sem eru verðmætar. Það er mjög mikilvægt að ríkið skuli tryggja sína lánsheimild, t.d. í þeim lendingarheimildum. Ég nefni það sem dæmi að árið 2018 seldi WOW air lendingarheimild á Gatwick-flugvelli í London og ég held að verðgildi þar hafi verið um 800 millj. kr. Lendingarheimildir sem við erum að ræða hér eru á Heathrow-flugvelli sem eru mun verðmætari og síðan í New York. Þetta er á bestu stöðum. Það eru svo sannarlega verðmæti í þessu og það væri ábyrgðarleysi að halda því fram hér í ræðustól að svo sé ekki. Síðan er náttúrlega vörumerkið Icelandair og bókunarkerfið, allt eru þetta verðmæti, bara svo því sé haldið til haga.

Síðan vil ég koma að því sem er kannski mikilvægast í þessu og við ræddum ítarlega í nefndinni sem eru lánaskilmálarnir. Það var áhyggjuefni innan nefndarinnar að hér væri verið að skekkja samkeppnisstöðu og þá sérstaklega hvað varðar aðra þætti þessa félags sem lúta að dótturfélögum og rekstri ferðaskrifstofa og öðru slíku og vissulega verðum við að tryggja að við skekkjum ekki samkeppnisstöðuna með þessari lánsheimild ríkissjóðs. Ég tel að ágætlega hafi tekist til í þeim efnum, búið sé að skerpa mjög vel á þessu og nú er komið inn sérstakt ákvæði þar sem fram kemur að lántaka er eingöngu heimilt að nýta lán með ríkisábyrgð til að standa skil á almennum rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri til og frá landinu. Það er óheimilt að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri eða ráðstafa því með öðrum hætti, svo sem til dótturfélaga eða í samstæðu lántaka sem ekki er í flugrekstri á Íslandi til og frá landinu. Þetta er að mínu mati, herra forseti, mjög skýrt og ég er ánægður með það hversu vel tókst í störfum nefndarinnar að koma þessu mikilvæga ákvæði hér inn.

Auk þess vil ég lýsa ánægju minni með það framhaldsskjal sem fylgir meirihlutaálitinu, fylgiskjal með yfirliti yfir helstu skilmála ríkisábyrgðar á lánsfjármögnun. Ég tek undir það með framsögumanni, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, að mikilvægt er að hafa það með sem fylgiskjal þannig að allir geti kynnt sér skilmálana. Það ríkir gagnsæi hvað það varðar þannig að ekki er hægt að koma með einhverjar yfirlýsingar um að þetta hafi ekki verið nógu skýrt eða aðgengilegt. Það er afar mikilvægt og ég lýsi ánægju minni með það hve vel tókst til að ganga frá þessu máli. Síðan er tekið skýrt fram með hvaða hætti hægt er að nálgast lánsheimildina. Vonandi kemur ekki til þess að draga þurfi á hana en hún er til tveggja ára, gildir til september 2022, eftir þann tíma lokast þessi leið og það skal endurgreiða á næstu þremur árum. Ef svigrúm er í rekstri félagsins skal greiða hraðar niður og aðeins verður heimilt að nýta umframfé í rekstri til að flýta endurgreiðslu á þessu láni með ábyrgð ríkisins en engum öðrum lánum. Þetta er vel og skilmerkilega fram sett hér þannig að ég held að menn þurfi ekki að hafa neinar efasemdir um að nefndin hafi lagt sig vel fram um að hafa skilmálana mjög skýra og passa upp á að hér sé ekki verið að veita ríkisábyrgð í samkeppnisrekstri. Flugsamgöngur til og frá landinu eru okkur afar mikilvægar, þjóðhagslega mjög mikilvægar, og hér er verið að standa vörð um fjölmörg störf. Allt er þetta vegna þess að hér hefur dunið yfir efnahagslegt áfall vegna veirufaraldursins sem enginn átti von á. Það er fullkomlega eðlilegt að ríkissjóður (Forseti hringir.) reyni allt til þess að sú endurreisn sem fram undan er, þegar kórónuveiran gengur yfir, gangi vel (Forseti hringir.) og þetta er mikilvægur þáttur í því.