150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:10]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því áður en lengra er haldið, með hliðsjón af 9. gr. í siðareglum fyrir alþingismenn, að tiltaka það að eiginkona mín vinnur hjá Icelandair. Það er mikið búið að ræða þetta mikilvæga mál hér í dag og alltaf er sú hætta fyrir hendi að við drukknum í umræðunni í deilum um keisarans skegg, einhver smáatriði, útfærsluatriði og þar fram eftir götunum. En mér finnst rétt að halda til haga: Hvað erum við að gera hér í dag? Hvað erum við að freista þess að tryggja? Hvaða hagsmuni erum við að verja í þessu máli?

Í þessu kófi öllu sem við höfum átt í síðustu mánuði eða misseri erum við að tryggja þá grunninnviði sem felast í samgöngum til og frá landinu og þá grunnhagsmuni sem felast í því. Við erum með öðrum orðum ekki að tryggja hagsmuni hluthafa í einkafyrirtæki á markaði. Við erum ekki að ganga í ábyrgð fyrir þá sem hafa lagt félaginu til hlutafé í gegnum árin. Við erum að tryggja þessa grunnhagsmuni. Ég heyri ekki betur en að allir sem hafa kvatt sér hljóðs í dag, sömuleiðis í umræðunum sem átt hafa sér stað í fjárlaganefnd um málið, séu sammála um að tryggja þessa hagsmuni, þ.e. samgöngur til og frá landinu.

Þá hafa komið til álita nokkrar leiðir sem við höfum farið yfir og það sem framsögumaður sagði í ræðu sinni áðan og ýmsir aðrir hafa komið inn á síðan þá. Hvaða leið á að velja til að tryggja þessa hagsmuni? Hugsanlega hefði verið hægt að gera ekki neitt, láta markaðinn sjá um þetta og sjá svo bara til með það hvort og þá hvaða aðilar hefðu hugsanlega komið inn á markaðsforsendum til að fljúga til og frá landinu, kaupa fyrirtækið, láta það fara í þrot og sjá svo til hvað gerðist. Kaupa það, eða eftirhreyturnar af því, á þeim tímapunkti. Ég er sannfærður um að leiðin sem hér hefur verið valin, með ríkisábyrgð á láni sem yrði þrautavaraleið fyrirtækisins þegar allt annað fé væri upp urið, sé ódýrasta og áhættuminnsta leiðin sem ríkið gat valið til þess að verja þá hagsmuni sem ég talaði um. Við erum að tala um að þetta kæmi til álita þegar allar aðrar leiðir hefðu verið farnar.

Álitaefnin sem hafa verið rædd hér í dag eru kannski fyrst og fremst tvö. Umræðan sem mér finnst sérkennilegust varðar annað þeirra, þ.e. veðin og þær tryggingar sem standa til boða gagnvart þessari ríkisábyrgð sem við ræðum um. Ég get ekki annað sagt en að ákveðin rökleysa, eða a.m.k. meinloka, hafi komið fram slag í slag í umræðunni í dag. Hún felst í því að telja að með einhverjum óyggjandi hætti sé hægt að tryggja einhvers konar 100% veð gagnvart þeirri leið sem er þrautavaraleið, sem eru síðustu peningarnir sem félagið hefði til að koma sér yfir þann erfiða hjalla sem það þarf nú að klífa. Ef það væri þannig að þegar allt annað fé væri búið, líka það nýja hlutafé sem félagið er í startholunum við að afla upp á 20–23 milljarða kr., gæti það lagt fram 100% veð eða tryggingu fyrir síðustu peningunum í þrautavaraleiðinni sem hér um ræðir — ef það hefði 100% tryggingu fyrir því fé, síðustu aurunum — þyrfti það enga ríkisábyrgð yfir höfuð. Ef félagið hefði 100% ábyrgð og tryggingar fyrir síðustu krónunum væri það svo eignalega sterkt og vel í stakk búið að það þyrfti væntanlega ekki á neinni ríkisábyrgð að halda. Þetta er einhvers konar meinloka sem komið hefur upp í umræðunni í dag, að það sé bara eitthvert ákvörðunaratriði að auka við veðhæfni fyrirtækisins. Það er ekki á þá leið sem kom fram í máli framsögumanns 1. minni hluta. Það er ekki ákvörðun ríkisins að segja sem svo að veðin fyrir síðustu krónunum sem yrði eytt verði 100%. Það er ekki þannig enda værum við þá ekki að ræða þessa ábyrgð með þeim hætti sem við erum að gera.

Varðandi hitt atriðið sem ég vildi nefna, sem var mikið rætt í nefndinni og er mikið álitaefni, vil ég skjóta því hér inn að ég vil auðvitað taka skýrt fram að það er ekki eins og þetta sé auðvelt mál eða að það sé sjálfsagður hlutur fyrir ríkið að ganga með einhverjum hætti í ábyrgðir fyrir rekstur á einkafyrirtæki. Þess vegna erum við að tala um þetta og þess vegna höfum við vandað okkur og gert þetta eins vel eins og við mögulega gátum á þeim tíma sem við höfðum. Það sem við gætum kallað að hefði falist í upphaflega frumvarpinu er samkeppnisskaði, þ.e. tjónið sem eðli málsins samkvæmt felst í aðgerð af þessu tagi fyrir samkeppni á umræddum markaði.

Og við gerum grein fyrir því, meiri hlutinn í nefndarálitinu og framsögumaður hér áðan, að við ætlum okkur ekki þá dul að halda því fram að það felist enginn slíkur skaði eða engar slíkar afleiðingar í frumvarpinu, eða frumvörpum, eins og það liggur fyrir. Við gerðum hins vegar býsna mikið til að lágmarka þann skaða og kom skýrt fram í máli framsögumanns og annarra sem tekið hafa til máls að við gerðum breytingar á málinu. Við lögðum ríka áherslu á að í málinu fælist meiri afmörkun á því í hvað væri unnt að nýta það fé sem yrði dregið á með ríkisábyrgð, að við myndum ná fram meiri afmörkun heldur en fólst í málinu upphaflega. Það er hafið yfir allan vafa. Því er það óskiljanlegt, sem haldið hefur verið fram í nokkrum ræðum hér í dag, að þetta sé einhvers konar opin heimild og óskilyrt af hálfu ríkisins. Þvert á móti tryggir starfið sem vannst í nefndinni með algjörlega óyggjandi hætti hvað má nota þetta fé í og til hvers má ekki nota það.

Ég ætla svo sem ekki að fara að lengja umræðuna með því að lesa þetta allt saman upp. En ég vil þó tiltaka síðustu málsgreinina sem bætt var við. Hér er beinlínis tekið fram, svo ég vitni nú í textann:

„… óheimilt er að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri, eða ráðstafa því með öðrum hætti, svo sem til dótturfélaga í samstæðu lántaka sem ekki eru í flugrekstri á Íslandi til og frá landinu.“

Það er ekki heimilt og það er með algerlega óyggjandi hætti tekið fyrir það í þessu máli. Það er óheimilt að nota féð sem hér um ræðir í öðrum tilgangi en tilgreindir eru í lánaskilmálunum sem fylgja þingmálinu og félagið hefur þegar undirgengist. Það er beinlínis rangt að halda því fram, sem hér hefur verið gert, að þeirra hagsmuna og sjónarmiða sé ekki gætt. Nefndin hnykkti sérstaklega á því.

Ég vil einfaldlega árétta hér í lok þessarar stuttu ræðu, um þetta mikilvæga og ekki augljósa eða auðvelda mál, að ég tel að ríkið hafi valið þá leið sem er áhættuminnst, ódýrust og fljótvirkust að því vel skilgreinda marki sem við stefnum öll að, að tryggja grunnsamgöngur til og frá landinu.