150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Við ræðum hér tvö frumvörp, annars vegar frumvarp til fjáraukalaga, þar sem veitt er fjárheimild til að ábyrgjast lánalínu til Icelandair, og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir, þar sem þeim lögum er vikið til hliðar í tilviki þeirrar ríkisábyrgðar sem hér er rædd. Ég lít þessi mál nokkuð ólíkum augum. Að ríkið stígi inn og styðji Icelandair og verji það falli kann að vera skynsamlegasta leiðin til að viðhalda samgöngum við umheiminn. Ætli við séum ekki líka bara orðin svo vön einhverjum feikistórum tölum að mér finnst eins og 15 milljarða skuldbinding sé ekkert brjálæðislega mikið miðað við það að á vordögum vorum við að afgreiða 60 milljarða pakka og 230 milljarða eitthvert annað. Þessi upphæð endurspeglar kannski frekar hvað vandinn sem steðjar að íslensku samfélagi, og þar með félagi sem sinnir hluta af grunninnviðum samfélagsins, er stór.

Ég ætla ekki að dvelja mikið við fjáraukalagafrumvarpið sem slíkt. Mig langar hins vegar að ræða, eins og ég ræddi reyndar við 1. umr. þessa máls, hversu varhugavert það kann að vera að víkja til hliðar lögum um ríkisábyrgð einmitt þegar reyna ætti á þau. Lögin hafa nefnilega það hlutverk að verja hagsmuni ríkisins og almennings með því að sjá til þess að ábyrgðarþegi hafi lagt fram viðeigandi tryggingar til að ríkið verði ekki fyrir fjárhagslegum skaða ef allt fer á versta veg. Þarna er kveðið á um ferli þar sem Ríkisábyrgðasjóður metur planið, leggur á það faglegt mat hvort áætlanir fyrirtækisins sem um ræðir séu raunhæfar og hvort sú áhætta sem ríkissjóður tekur á sig sé ásættanleg. Á þetta var bent daginn sem mælt var fyrir frumvarpinu, í umsögn sem barst frá Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun benti sérstaklega á að þær eignir sem frumvarpið gerir ráð fyrir sem tryggingu, séu þess eðlis að ef allt fer á versta veg í rekstri félagsins sé afar hæpið að þær standi undir kröfum sem gætu numið allt að 15 milljörðum kr. Um þetta er fjallað í nefndaráliti meiri hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að erfitt sé að leggja verðmat á virði veðanna en telur engu síður að veruleg verðmæti séu fólgin í nafni og vörumerki félagsins, sem og bókunarkerfi.“

Það er alveg eins hægt að telja að verulega lítil verðmæti séu fólgin í þessum veðum. Það er einfaldlega ekki hægt að segja það. Í umsögn Ríkisendurskoðunar segir einmitt að það sé, með leyfi forseta, „útilokað að leggja mat á nema með ítarlegri úttekt sérfróðra aðila“. Þess vegna geti Ríkisendurskoðun ekki lagt mat á virði veðanna utan frá. En þetta er einmitt það sem Ríkisábyrgðasjóður gæti gert. Hann gæti komið til þingsins og sagt að þessi veð stæðu mögulega undir 15 milljarða skuldbindingum, eða hann kæmi til baka og segði að þetta væru veð í tómu lofti þannig að finna þyrfti eitthvað annað. Þar hefur ítrekað verið bent á, ekki bara af þingmönnum heldur í umsögnum um málið, að einn möguleiki væri að ríkissjóður eignaðist hreinlega hlut í félaginu ef allt færi á versta veg, því að ef það gerist eru þau veð sem fyrir liggja verðlaus. Veð í hlutabréfum gætu verið verðlítil en þau væru þó einhvers virði og myndu vera verkfæri til þess að ríkið gæti stigið inn og tryggt þennan rekstur, af því að þegar upp er staðið snýst þetta alltaf um þann rekstur sem Icelandair stendur fyrir, að tryggja samgöngur við umheiminn.

Lögunum er vikið til hliðar með þessum rökum í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Er það gert sökum þess að lög um ríkisábyrgðir eiga fyrst og fremst við þegar ríkissjóður veitir ábyrgðir vegna einstakra framkvæmda eða verka en ekki þegar verið að er veita sérstakan efnahagslegan stuðning til fyrirtækja vegna ytri aðstæðna eins og heimsfaraldurs.“

Það er einmitt vikið að þessu í nefndaráliti meiri hlutans og bent á aðrar ábyrgðir sem Alþingi hefur samþykkt í tengslum við faraldurinn, ábyrgðir sem ekki beindust gegn einstaka fyrirtæki heldur voru einhvers konar óútfyllt ávísun inn í Ferðaábyrgðasjóð, stuðningslán og brúarlán, til að grípa þau fyrirtæki sem uppfylla ákveðin skilyrði þar. Í frumvarpi til laga stendur, ef við skoðum greinargerðina með stuðningslánunum, með leyfi forseta:

„Lagt er til að lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, gildi ekki um ábyrgðir ríkissjóðs á stuðningslánum samkvæmt frumvarpinu. Þau lög eiga fyrst og fremst við þegar ríkissjóður veitir ábyrgðir vegna einstakra framkvæmda eða verka en ekki þegar veittur er almennur efnahagslegur stuðningur til fyrirtækja.“

Herra forseti. Við heyrum að þessir textar kallast á, en það er áhugavert að í tilviki frumvarpsins sem við ræðum í dag eiga lög um ríkisábyrgðir ekki við þegar verið er að veita sérstakan efnahagslegan stuðning til fyrirtækja. En hér á vormánuðum áttu þau ekki við þegar veittur var almennur efnahagslegur stuðningur til fyrirtækja.

Mér finnst það áhugavert, hvort lögin eigi þá bara aldrei við eða hvort þau eigi akkúrat ekki við þá ríkisábyrgð sem þingið fjallar um hverju sinni. Það er mjög bagalegt af því að lög um ríkisábyrgðir eru sett til að tryggja hag almennings og til að sjá til þess að þó að full rök kunni að vera fyrir því að styðja við atvinnurekstur í landinu með inngripum af þessu tagi, jafnvel með einhverjum sértækum aðgerðum við vissar kringumstæður, sé eðlilegt að það sé gert samkvæmt almennum reglum og að vel athuguðu máli. Það er það sem lög um ríkisábyrgðir eiga að tryggja. Þetta síðasta hef ég að hluta til upp úr nefndaráliti sem rætt var hér á þingi fyrir nærri tveimur áratugum þegar samþykkt voru lög um heimild til að ábyrgjast fjármögnun nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar. Þá var svo skemmtilegt að lögum um ríkisábyrgð var vikið til hliðar af enn einni ástæðunni. Við erum búin að nefna þær tvær, þau eiga ekki við þegar veittur er almennur stuðningur eða sérstakur stuðningur, en árið 2002 áttu þau ekki við af eftirfarandi ástæðu, með leyfi forseta:

„Ekki er gert sérstaklega ráð fyrir heimildum til ríkisábyrgða á sviði rannsóknar- og þróunarverkefna í lögum nr. 121/1997, enda um almenn lög að ræða.“

Þarna voru lögin bara fimm ára þannig að erfitt er að segja að þau hafi verið úr sér gengin, eins og virðast eiga að vera rökin í dag. En þetta er áhyggjuefni vegna þess að á þessum tímum, þegar stjórnvöld eiga að vera að koma landinu í gegnum sögulega mikinn storm, vantar mælana í brúna, það er bara keyrt blint í þetta. Ríkisábyrgðasjóður er einn af mælunum sem nýta á við þessar aðstæður.

Mig langar að lokum að nefna örstutt atriði sem fram hefur komið í máli nokkurra og kemur fram í ýmsum umsögnum líka, að það mætti svo hæglega nýta ferðina og skilyrða þennan stuðning, þennan gríðarlega fjárhagslega stuðning, við eitthvað, við einhverjar breytingar, við það að Icelandair, sem rís upp úr þessum erfiðleikum, verði traustara og betra og umhverfisvænna fyrirtæki, fyrirtæki sem ekki reynir að svína á verkafólki. Hægt væri að byggja inn ýmiss konar skilyrði í þennan gríðarlega stuðning þannig að fyrirtækið verði betra eftir Covid en fyrir. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að ríkisstjórnin, og þá kannski sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, sé svo eindregið á móti slíkum skilyrðingum, eins og þetta sé róttækasta hugmynd í heimi, þegar heimurinn allur er einmitt kominn á akkúrat þennan stað. Við heyrum ákall frá öllum alþjóðastofnunum, sem eru flestar reknar af pólitískum bræðrum Sjálfstæðisflokksins, um að skilyrða uppbyggingarstyrki vegna Covid við það að þeir þjóni öðrum markmiðum, eins og t.d. að berjast gegn loftslagsbreytingum af manna völdum eða að styðja framgang einhverra annarra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Það er eins og íslenska hægrið hafi ekki fengið minnisblaðið frá alþjóðlegu hægri blokkinni, vegna þess að hún er öll komin þangað.

Sjálfstæðisflokkurinn íslenski er enn þá að spila eftir áratugagamalli handbók, fastur í einhverri kreddu þar sem ríkið má ekki lenda í því að eignast hlutabréf í fyrirtæki sem ríkið er þó að styrkja með 15 milljörðum af almannafé, þar sem ríkið má ekki skilyrða þann stuðning því að fyrirtækið taki þátt í því að byggja upp samfélag framtíðarinnar. Það kemur svo sem ekkert á óvart frá Sjálfstæðisflokknum, en það er svo ergilegt að þessi staða sé uppi þegar það er ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem stýrir öllu, eða það ætti alla vega ekki að vera þannig.