150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Píratar eru andsnúnir þeirri leið ríkisstjórnarinnar að veita ríkisábyrgð. Við teljum þetta vera klassískt dæmi um að einkavæða gróðann en ríkisvæða tapið. Við teljum þetta vera fjárhættuspil með lífeyrissjóði almennings, með sjóði ríkisbankanna og með ríkissjóð eða fé almennings og skattgreiðenda. Við teljum áætlanir Icelandair byggja á því að engin samkeppni verði á íslenskum flugmarkaði. Öðruvísi gengur þessi spilaborg ekki upp. Þar með erum við búin að skapa hvata fyrir ríkissjóð, fyrir ríkisstjórnina, gegn því að hér myndist heilbrigð samkeppni á flugmarkaði á Íslandi vegna þess að þá verði gengið á lánalínuna. Það er mjög vont veganesti fyrir næstu ríkisstjórn en fleytir þessari líklega fram undir næstu kosningar. Þetta finnst mér vera mjög áhættusækið og mjög óábyrg meðferð á almannafé. Við segjum nei.