150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um hagsmuni sem eru gríðarlega miklir í þjóðhagslegu samhengi og um fyrirtæki sem hefur leitt eflingu ferðaþjónustunnar í áratugi, ef svo má að orði komast. Ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir geta hæglega axlað þá ábyrgð ein og sér sem felst í þeirri ákvörðun sem hér er verið að taka. Það er magnað að hlusta á málflutning margra hv. þingmanna, til að mynda formann Viðreisnar sem kemur upp og talar um þessi mál með þeim hætti sem hún gerir. Það er ágætt að rifja það upp að hún studdi á sínum tíma ríkisábyrgð fyrir fyrirtæki sem heitir deCode. (Gripið fram í: Nei.) Var það ekki? (Gripið fram í: … rifja það betur upp.) Eigum við rifja upp löggjöfina sem var sett um það? (Gripið fram í: Já.)

(Forseti hringir.) Ég hef engar áhyggjur af því að við styðjum þetta mál og berum ábyrgð á því. (Forseti hringir.) Málflutningur Pírata snýst um að hér eigi ekki að sinna brunavörnum heldur að slökkva eldana þegar þeir eru kviknaðir. (Forseti hringir.) Við erum tilbúin að axla ábyrgð og við munum gera það með þessari ákvörðun vegna þess að þjóðhagslegir hagsmunir eru mjög ríkir í þessu máli.