150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem enginn vildi þurfa að koma að ef staðan væri ekki sú svo sem uppi er. En staðan er auðvitað mjög sérstök. Þau fyrirtæki sem Icelandair stendur í samkeppni við í dag, þó að samkeppni sé afstæð á flugmarkaði heimsins, eru öll með einum eða öðrum hætti búin að fá ríkisstuðning inn í sína efnahagsreikninga til stuðnings við rekstur. Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir. Það er búið að reisa girðingar ef svo má kalla í meðförum nefndarinnar, fyrirvara sem ég get fyrir mitt leyti sagt að mér þyki ágætlega útfærðir. Það er von allra að ekki reyni á þessa ábyrgð. En ég vil bara minna á það sem ég hef sagt áður að ekki er langt síðan að þingheimi þótti lítið mál að setja þrefalda þá upphæð sem nú er lögð til ábyrgðar í borgarlínu — ég kom inn á hana, mér tókst það — og það þótti bara ekkert vandamál. (Forseti hringir.) Við verðum að setja þetta í samhengi og meira og minna (Forseti hringir.) öll félög sem eru starfandi á þessum markaði njóta ríkisstyrks í dag. Miðflokkurinn mun styðja við þetta mál.