150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á þessum misskilningi áðan varðandi atkvæði hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í málinu um deCode á sínum tíma. En það er ágætt að rifja upp að þá var veitt ríkisábyrgð fyrir það fyrirtæki sem nú stendur öflugt í íslensku samfélagi og hefur leikið úrslitahlutverk í þeim aðstæðum sem hér hafa skapast. Sjáum við eftir því að hafa veitt ríkisábyrgð á þeim tíma, sem reyndi reyndar aldrei á? Sjáum við eftir því að hafa veitt Icelandair þær ríkisábyrgðir sem við höfum veitt félaginu áður, t.d. í kjölfar árásanna á tvíburaturnana? Þá þurftum við að veita ríkisábyrgð til að fyrirtæki gæti starfað áfram við þær erfiðu aðstæður sem sköpuðust í heiminum. Nei, við gerum það ekki. Það reyndi aldrei á þær. Með sama hætti eru ríkisstjórnarflokkarnir tilbúnir að (Forseti hringir.) axla þá ábyrgð núna sem stjórnarandstaðan kallar eftir og við hikum ekki við að gæta þeirra þjóðhagslegu hagsmuna sem hér eru undir.