151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Góðir landsmenn. Næstu daga og vikur munu þingmenn Miðflokksins halda áfram að kynna lausnir á þeim vanda sem við erum að takast á við en einnig á þeim málum sem stjórnvöld hafa vanrækt frá því áður en faraldurinn hófst. Nú er hins vegar ætlunin að ræða stefnuræðu forsætisráðherra og nýbirta þingmálaskrá.

Í ræðu sinni rakti forsætisráðherra þekkt áhugamál ríkisstjórnarinnar, sagði frá Covid-faraldrinum og vitnaði ítrekað í franska heimspekinginn Albert Camus. Það var reyndar viðeigandi að ráðherra skyldi vitna í Camus, ekki vegna þess að hann var sósíalisti heldur vegna þess að hann skilgreindi sig sem absúrdista eða fáránleikasinna. Sú stefna sem ríkisstjórnin kynnir nú í lok kjörtímabilsins er í anda Albert Camus. Hún er absúrd, hún er fáránleg. Þar heldur áfram hin endalausa runa kerfismála sem flest snúast um að sýna að Ísland sé hæfasti krakkinn á upptökuheimili Evrópusambandsins. En að því marki sem ríkisstjórnin sýnir pólitískar áherslur nú við lok kjörtímabilsins skortir mann orð til að lýsa nær undrun á því hvert þessi ríkisstjórn stefnir.

Forsætisráðherra kom inn á nokkur þessara mála í stefnuræðu sinni, þar með talið mál fjögur í málefnaskránni, tillögu sem miðað við lýsinguna er líklega óhugnanlegasta þingmál sem ég man eftir í seinni tíð. Þar virðist standa til að leggja bann við því að börn fái nauðsynlegar og lífsbætandi aðgerðir. Börn geta fæðst með ýmiss konar fæðingargalla. Stundum er ekkert við því að gera en sem betur fer gera nútímavísindi okkur kleift að bæta úr mörgum þeirra. En nú er lagt til að óheimilt verði að gera aðgerðir til að lagfæra, lækna, ákveðin líffæri eða það sem kallað er ódæmigerð kyneinkenni. Það á við um 1,7% barna samkvæmt gögnum ráðuneytisins. Nú ætlar ríkisstjórnin að banna foreldrum og læknum að nýta nútímalækningar. Þetta er aðför að framförum og vísindum. Þetta er aðför að frelsi foreldra. Þetta er aðför að frelsi heilbrigðisstarfsfólks og þetta er aðför að réttindum barna. Ég trúi því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn hleypi þessu máli í gegn. Það hafa reyndar verið mörg mál sem ég hélt að sá flokkur gæti ekki samþykkt en hann gerði það nú samt. Þriðji flokkurinn mun svo væntanlega gera það sem ætlast er til af honum.

Forsætisráðherra boðaði líka breytingar á lögum um móttöku fylgdarlausra barna, að því er virðist til að gefa þeim og væntanlega fjölskyldum þeirra forgang til hælisveitingar. Sem forsætisráðherra leitaðist ég við að kynna mér málefni flóttamanna með samtölum við fólk sem vinnur að þeim málum á vettvangi alla daga. Það sem stóð upp úr í ráðgjöf þessa fólks var að alls ekki mætti setja sérreglur um fylgdarlaus börn vegna þess að með því væri verið að stuðla að því að börn yrðu send ein af stað í hættuför. Hér sem fyrr byggist stefnan bara á orðanna hljóða, ímynd en ekki raunverulegum afleiðingum. Staða innflytjendamála er raunar í algjörum ólestri af sömu ástæðum. Stjórnleysið sem ríkir kemur í veg fyrir að við getum hjálpað sem flestum þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda.

Málefnaskrá ríkisstjórnarinnar er uppfull af furðumálum. Hún boðar lögleiðingu fíkniefna, hvorki meira né minna, en virðist í staðinn ætla að beita sér gegn nikótínpúðum og rafrettum. Gerð verður önnur tilraun til að vega að starfi íslenskrar leigubílstjóra á sama tíma og þeir hafa orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu án þess að fá mikla aðstoð. Nú á að rústa íslenskri nafnahefð sem hefur varðveist frá landnámi og þar til þessi ríkisstjórn tók við. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki gleymt áformum sínum um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga.

Þótt ekki gefist tími til að fara yfir öll furðumálin sem bíða okkar má nefna það að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar verða ítarlega ræddar þegar fjárlagaumræðan hefst hér eftir helgi. Samkvæmt forsætisráðherra liggur fyrir áætlun um samdrátt í öllum geirum samfélagsins. Þar er ekki vísað í efnahagslega samdráttinn, sá samdráttur hefur komið án áætlunar, heldur aðgerðir í loftslagsmálum. Nú sér stjórnin tækifæri til að nota ástandið í pólitískum tilgangi eða eins og það var orðað, nýta þau færi sem faraldurinn hefur skapað til að hraða grænni byltingu. En hvert er langstærsta framlag Íslendinga til loftslagsmála? Það er iðnaðurinn sem við rekum hér með umhverfisvænni orku. Ef eitt álver flyttist frá Íslandi til Kína myndi losun nærri tífaldast. Þrátt fyrir það er íslensk stóriðja í uppnámi og engin merki um að ríkisstjórnin ætli að bregðast við. Vandinn er enn meiri í landbúnaði. Sótt er að greininni úr mörgum áttum og atvinnugrein sem hefur verið undirstaða byggðar á Íslandi frá landnámi er í verulegri hættu. Á sama tíma eyðir ríkisstjórnin tugum milljarða í verkefni á borð við borgarlínu og stofnanavæðingu loftslagsmála.

Báknið þenst áfram út eins og sést best á ríkisstjórninni sjálfri. Útgjöld forsætisráðuneytisins hafa aldrei aukist jafn hratt og í tíð þessarar ríkisstjórnar og engin ríkisstjórn hefur ráðið viðlíka fjölda aðstoðarfólks og bætt í framkvæmdarvaldið eins og þessi ríkisstjórn sem sagðist mynduð um eflingu Alþingis. En til hvers var hún mynduð? Er eitthvað í þessari síðustu málaskrá ríkisstjórnarinnar sem hefði ekki átt jafn vel við og reyndar enn betur ef Vinstri græn væru í ríkisstjórninni með t.d. Pírötum og Viðreisn?

Þetta þarf ekki að vera svona. Það er annar valkostur og það munu þingmenn Miðflokksins sýna á nýju þingi.