151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Kæra þjóð. Kreppan er grimm og það er fátæktin líka. Það er athyglisvert að í fyrsta skipti í kvöld kemur fram hugtakið fátækt. En staðreyndin er sú að hér erum við að horfa upp á gjána verða æ dýpri og æ gleiðari á milli ríkra og fátækra. Í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna hefur fátæktin vaxið í takt við áfallið sem við erum að verða fyrir af völdum þessarar veiru. Og hvað sjáum við? Hvað sjáum við, kæru landsmenn? Við sjáum lengri raðir fyrir framan hjálparstofnanir þar sem fólk er að biðja um mat, þar sem svangir biðja um mat.

Þá kallar formaður Framsóknarflokksins: Vinna, vinna, atvinna, atvinna. Frábært. Það er alveg rétt. Við verðum að hafa efnahagshjólin í gangi. En þegar verið er að tala um að gera meira en minna þá hefði mátt ætla að verið væri að tala um þjóðina í heild, ekki að kljúfa hana í tvennt þannig að hagsmunagæslan væri bara fyrir þá sem eiga en ekki fyrir þá sem þurfa líka á hjálp að halda. Hvað þýðir að gera meira en minna? Það þýðir að hjálpa öllum, ekki bara sumum. Ég hef sjaldan séð eins grímulausa hagsmunagæslu hjá nokkurri ríkisstjórn og þeirri sem starfar nú í boði Vinstri grænna, aldrei. Ég hef reyndar ekki leitað logandi ljósi en ég leyfi mér að efast um að mér gangi vel að finna hana.

Við erum nýbúin að horfa upp á það að um hábjartan dag tókst á sekúndubroti að slengja fram 25 milljarða kr. loforði þegar Samtök atvinnulífsins fóru í fýlu og kreistu ríkisstjórnina. Ég veit ekki hvernig þeir fóru að því, kannski þurftu þeir ekki einu sinni að hafa fyrir því. Kannski eru þeir bara allir svona rosalega nánir, 25 milljarðar á einum degi. En það kostaði blóð, svita og tár að draga fram 25 milljónir kr. sem var skipt á níu hjálparstofnanir til að gefa fátæku fólki að borða.

Mér er virkilega misboðið. Hér kemur hver silkihúfan, með fullri virðingu, fram á fætur annarri og talar um komandi kosningar og hér er haldin hver kosningaræðan á fætur annarri. Ég óttast að það sem kemur upp úr kjörkössunum í september að ári liðnu komi til með að gefa landsmönnum nákvæmlega það sama, þessum hópi sem Flokkur fólksins er að berjast fyrir, og við höfum séð kjörtímabil eftir kjörtímabil: Fátækt.

Í þessum Covid-faraldri hefur krónan fallið um tæp 20% frá áramótum, það hefur farið beint út í verðlagið, beinustu leið út í verðlagið. Matarkarfan hefur hækkað um tugi prósenta frá áramótum; 6,43% núna um daginn bara á milli mánaða. Og hver einasti Íslendingur, kannski ekki þeir sem eiga nóg af peningum en a.m.k. þeir sem eiga erfitt með að kaupa sér í matinn, sem eiga bágt með aðeiga fyrir salti í grautinn, hafa tekið eftir því að dag frá degi hefur þurft að greiða fleiri krónur fyrir lítilræðið sem hægt er að setja í körfuna. Hvað er ríkisstjórnin að gera í því? Jú, vitið þið bara hvað? Hin árlega vísitöluleiðrétting á að koma 1. janúar sem hefur verið slengt á almannatryggingarnar, 3,6%. Er það launahækkun? Nei, það er lögbundin vísitöluleiðrétting sem árlega hefur komið fram, 1. janúar ár hvert. Við skulum ekki gleyma því þegar þau fara að mæra það hvernig þau eru að hækka launin hjá fátækasta fólkinu. Það er ekki launahækkun. Það eru aum vísitöluleiðrétting sem í engu heldur í við fall krónunnar og hækkun á neysluvörum sem við þurfum að taka á okkur, og fátækt fólk þarf að berjast fyrir dag frá degi. Hver skyldi trúa því þegar verið er að tala um samstöðu og jöfnuð? Hver skyldi trúa því þegar verið er að benda á það hvernig heimskreppur hafa í raun komið með vaxandi ójöfnuði? Hver skyldi trúa því þegar verið er að tala um einhvern Camus koníakskarl að á sama tíma er jöfnuðurinn að verða meiri og meiri ójöfnuður og það í boði þessarar ríkisstjórnar.

Mig langar að lokum að nefna eitt. Þann 13. september árið 2017 stóð hæstv. forsætisráðherra, þá þingmaður, í þessu ræðupúlti hér og hvað sagði hún við ykkur, kæra þjóð? Það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlæti, það þýðir það sama og að neita því um réttlæti. Og hvað er það sem við horfum upp á í dag? Við horfum upp á nákvæmlega það að þegar þessi ágæti þingmaður situr nú við stýri forsætisráðherra í þessari ríkisstjórn þá láta þau fátækt fólk bíða eftir réttlæti.