151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:54]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Kæru landar.

Vonin styrkir veikan þrótt

vonin kvíða hrindir,

vonin hverja vökunótt

vonarljósin kyndir.

Vonin mér í brjósti býr

besti hjartans auður.

Vonin aldrei frá mér flýr

fyrr en ég er dauður.

Þannig orti Páll Ólafsson, skáldið góða á 19. öld, um vonina, þetta óumræðilega afl sem við þurfum nú á að halda sem aldrei fyrr andspænis krefjandi verkefnum dagsins. Og vonarljósin loga víða — þau eru tendruð af listamönnunum sem hjálpa okkur að túlka og tjá óskiljanlegt ástand og eru samfélagshópur sem þarf sérstaklega að muna eftir. Þau eru tendruð hjá vísindamönnunum sem hjálpa okkur að greina og skilja vágestinn og ná tökum á honum til að geta ráðið niðurlögum hans, og eru annar hópur sem þarf að gæta þess að hafi starfsgrundvöll. Þau loga hjá því fólki sem annast um veikt fólk og hjálpar því til að ná heilsu og þau loga hjá öllum þeim sem ganga daglega til sinnar vinnu og sinna þörfu starfi.

Og vonarljósin þurfa líka að vera leiðarljós í komandi uppbyggingarstarfi. Þá er gott að muna eftir grunngildum jafnaðarstefnunnar eins og hún þróaðist annars staðar á Norðurlöndunum: að reyna alltaf að finna réttláta og sanngjarna skiptingu á gæðum og byrðum, taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni, efla velferð og iðka skynsamlega hagstjórn þar sem ábyrgðarkennd helst órjúfanlega í hendur við samhjálp.

Jafnaðarstefnan er ábyrga leiðin út úr vandanum. Nú duga augljóslega ekki úreltar kennisetningar nýfrjálshyggjunnar. Ábyrga leiðin út úr vandanum snýst um að tryggja lágmarksafkomu þeirra sem veikast standa eftir að hafa misst vinnu eða þurfa að treysta á samhjálp. Það er ekki bara rétt vegna þess að fátækt á ekki að sjást í okkar ríka samfélagi heldur líka vegna þess að það örvar hagkerfið. Ábyrga leiðin snýst um að hækka atvinnuleysisbætur svo að þær nái lágmarkslaunum enda fráleitt að segja atvinnulausu fólki að leita sér bara að vinnu, þegar enga vinnu er að fá. Ábyrga leiðin snýst um að veita fjármuni til að skapa störf, styðja lítil fyrirtæki sem byggja á snjöllum hugmyndum, áræði og ástríðu. Ábyrga leiðin snýst um að veita fé til þess að efla menntun til að búa í haginn fyrir gott og auðugt mannlíf í framtíðinni. Ábyrga leiðin snýst um að gera stórátak í loftslagsmálum til að búa í haginn fyrir yfirleitt eitthvað mannlíf í framtíðinni. Ábyrga leiðin snýst líka um að hætta að hlusta á eiginhagsmunaverðina og taka upp evru sem gjaldmiðil og ganga alla leið inn í Evrópusambandið, þar sem öll okkar helstu viðskiptalönd eru og koma sér saman um leikreglur á markaði jafnt fyrir yfirþjóðlega risa sem þjóðarkríli eins og okkur. Ábyrga leiðin snýst um að þjóðin fái raunverulegan arð af auðlindum sínum.

Virðulegi forseti. Í morgun birtist í Fréttablaðinu könnun sem sýndi að ráðherrar ríkisstjórnarinnar njóta upp til hópa ámóta trausts og fylgistölur Donalds Trumps eru hér á landi. Slíkt vantraust á ráðamönnum getur beinlínis verið hættulegt lýðræðinu. Kjósendur telja sig ekki geta treyst því að atkvæði þeirra styrki í raun og veru þá stjórnmálastefnu sem þeir aðhyllast. Þú kýst kannski vinstri flokk sem leiðir svo til valda flokk sem lækkar fjármagnstekjuskatt og hækkar frítekjumark erfðafjárskatts. Þessi ríkisstjórn gerir iðulega tilkall til að spanna allt litróf íslenskra stjórnmála, eins og það er kallað, en það vantar svo mörg litbrigði í hana að hún líkist í raun og veru meira þoku en regnboga.

Kæru landar. Vonin hverja vökunótt vonarljósin kyndir. Við skulum líta eftir þeim.