151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Um Covid-19 veiruna sagði hæstv. forsætisráðherra í stefnuræðu sinni m.a. að við ættum að stíga eitt skref í einu, vanda hvert og eitt þeirra eins og hægt er og það slysalaust. Afleiðingar veirunnar eru nú þegar þær að biðlistar eftir læknismeðferðum lengjast og lengjast. Bið hjá veiku fólki, sem í flestum tilfellum verður að gleypa sterk verkjalyf árum saman, veldur því að heilsan versnar og versnar. Flokkur fólksins gerir kröfu um að ríkisstjórnin sjái til þess í eitt skipti fyrir öll að leysa veikt fólk undan sárum þjáningum með því að það fái lífsnauðsynlegar aðgerðir strax. Börn bíða eftir aðgerð, meðferð. Börn með geðrænan vanda bíða mánuðum, árum saman eftir meðferð. Nær 1.200 börn þjást að ástæðulausu í þessum ömurlegu aðstæðum. Hvers vegna? Fjölskyldur þeirra þjást einnig og grundvöllur fjárhagslegrar stöðu þeirra versnar og versnar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Flokkur fólksins krefst þess að ríkisstjórnin sjái til þess að ekkert barn þurfi að bíða það lengi eftir nauðsynlegri meðferð að biðin skaði það eða fjölskyldu þess. Flokkur fólksins krefst þess að börn þurfi aldrei, og ég endurtek aldrei, að vera á biðlista eftir nauðsynlegri meðferð eða annarri læknisaðgerð.

Við verðum að sjá til þess að varnir gegn Covid-19 verði ekki svo miklar að það valdi fólki heilsutjóni með því að á sama tíma eigi það á hættu að veikjast illa eða deyja vegna annarra sjúkdóma sem hægt er að lækna.

Hæstv. forsætisráðherra segir að fyrr í þessari viku hafi ríkisstjórnin kynnt aðgerðir til að greiða fyrir sátt á vinnumarkaði, sátt við Samtök atvinnulífsins sem hóta að standa ekki við lífskjarasamningana. Samtök atvinnulífsins gætu ekki staðið við hækkun upp á 24.000 kr. á mánuði til þeirra lægst launuðu. Það er 1–2% af mánaðarlaunum fjölda þeirra sem eru í Samtökum atvinnulífsins. Auðvitað þarf ekki að hjálpa þeim að hækka lágmarkslaun í 350.000 kr. fyrir skatt en ríkisstjórnin þarf að hjálpa þeim sem verða að lifa af 220.000 kr. lífeyrislaunum á mánuði, sem verða að herða sultarólina vegna hækkandi matarverðs og verðs á öðrum nauðsynjum, vegna hækkandi verðbólgu og gengis. Nei, verjum þessa velferð, segir stolt ríkisstjórnin. Og hún segist einnig hafa dregið úr skerðingum og greiðslum til þeirra sem eru á örorkulífeyrislaunum. Flokkur fólksins segir: Burt með keðjuverkandi skerðingar sem eru ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi gegn veiku fólki og eldri borgurum.

Góðir landsmenn. Hæstv. forsætisráðherra bendir á að ríkisstjórnin hafi komið til móts við tekjulægri hópa aldraðra. Jú, hún gerði það en hækkaði þá sem voru í búsetuskerðingum bara um 90% að lágmarki ellilífeyris og setti svo aftur á, hvað? — jú, krónu á móti krónu skerðingu á þennan hóp. Trúið þið þessu? Bara 90% og króna á móti krónu eftir það. Vá! Þvílíkur metnaður hjá ríkisstjórninni og þetta á að verja með öllum ráðum. Flokkur fólksins mótmælir svona vinnubrögðum og mun berjast með öllum ráðum til að fá þetta leiðrétt strax því að þetta er ekkert annað en ávísun á sárafátækt. Þá gerir Flokkur fólksins kröfu um að eldri borgarar og öryrkjar fái strax hækkun á lífeyrislaunum sínum í samræmi við lífskjarasamningana. Þessi hópur hinna verst settu sat einnig eftir þegar aðrir fengu leiðréttingu á launum eftir hrunið og þá kjaragliðnun ber einnig að leiðrétta.

Í miðjum Covid-19 faraldrinum hafa þúsundir ekki efni á að kaupa sér mat. Þeir sem geta fara í biðröð eftir mat og þegar allur matur klárast hjá matarstofnunum verður stór hópur að fara matarlaus heim. Þá eru þeir sem heilsu sinnar vegna komast ekki í röðina eftir mat og eru í þeirri ömurlegu aðstöðu að vera einnig matarlausir heima.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin gengur í dag frá Pontíusi til Pílatusar að leita að lausnum á stöðu fjármála en fattar ekki að Pontíus Pílatus er ein og sama persónan, þ.e. Samtök atvinnulífsins. Á meðan ganga öryrkjar og eldri borgarar með þungan kross skerðinga og sveltið frá Pontíusi til Heródesar í leit að réttlæti. En árangurinn er verri en enginn. Eins og hér segir, lífeyrislaunaþeginn með íþyngjandi skattinn stendur sveltur upp við staur, getur ekki borgað keðjuverkandi skattinn því að hann á engan aur. Með hausinn oní tóman maga, maginn oní skó, ríkisstjórnin reimar fyrir og segir: Þessi fær aldrei nóg. — Eigið góðar stundir.