151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:39]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Mig langar til að vega aðeins upp á móti þeirri neikvæðni sem mér hefur þótt einkenna málflutning allt of margra stjórnarandstæðinga hér í kvöld með lítilli dæmisögu úr raunveruleikanum. Þessi dæmisaga er um tómata, ferðamenn og framtak.

Í Reykholti í Biskupstungum, í Bláskógabyggð, er fjölskyldufyrirtæki sem heitir Friðheimar. Fyrir 15 árum eða svo hófu þau heilsársræktun á tómötum og vegnaði ágætlega. Upp úr hruni, fyrir 10 árum, fóru þau að þreifa fyrir sér í ferðaþjónustu til að skjóta aukastoð undir reksturinn. Það er skemmst frá því að segja að í öllum þeim uppgangi sem varð í þeirri grein á næstu árum snerust hlutföllin við; ferðaþjónustan varð 75% af rekstrinum en tómataræktin 25%. Um 180.000 gestir komu í Friðheima í fyrra og starfsmenn voru um 60. Þetta eru mikil umsvif í því 300 manna samfélagi sem Reykholt er.

Í vor voru góð ráð dýr. Það stefndi í að 75% af rekstrinum hryndi til grunna. Nærtækast hefði kannski verið að skera allt niður og skrúfa reksturinn aftur niður í 25%, en það gerði fjölskyldan í Friðheimum ekki. Þau hugsuðu sem svo að þótt ferðamennirnir kæmu ekki þetta sumarið þá myndu Íslendingar halda áfram að borða tómata. Og þau réðust af öllu afli í það. Keyptu land og notuðu Covid-sumarið til að reisa 5.600 fermetra nýmóðins gróðurhús. Tvöfölduðu ræktunarrýmið og byrja að planta tómötum í nýja húsinu núna í næsta mánuði. Og þau eru líka tilbúin að taka á móti ferðamönnunum þegar þeir koma aftur.

Og hvað getum við nú lært af þessari dæmisögu? Í fyrsta lagi getum við notað þessa sögu til að læra dálítið um tómata. Á Íslandi framleiðum við um 40% neyslunnar sjálf en flytjum 60% inn. Munum að tómatar er 92% vatn — þetta er sem sagt aðallega innflutningur á vatni frá útlöndum. Á Íslandi eru tómatar ræktaðir með tæru lindarvatni, endurnýjanlegri raforku og jarðhita. Ef vörunni er ekið í verslanir með rafmagnsbílum verður ekkert kolefnisspor til í öllu ferlinu. Í útlöndum eru tómatar gjarnan framleiddir með afgangsvatni sem oft er ekki verið að nota í fyrsta sinn; orku úr jarðefnaeldsneyti og síðan eru þeir fluttir hingað með olíudrifnum skipum og flugvélum. Hvora vöruna viljum við nota?

Í öðru lagi, og það er nú kannski aðalástæðan fyrir dæmisögunni, sjáum við hvernig dugmiklir einstaklingar bregðast við ytri áföllum með hugvitssemi, framtakssemi og kjarki til að snúa aðstæðum sér í vil. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki hafa allir, hvorki fólk né fyrirtæki, aðstæður til að bregðast við Covid-áföllunum með sama uppbyggjandi hætti og fólkið í sögunni. Margir eiga um sárt að binda og þar þurfum við að hlaupa undir bagga. En gleymum því ekki að við sem þjóð höfum aldrei verið jafn vel í stakk búin til að bregðast við ytri áföllum og einmitt núna. Og þótt við séum núna kannski í öldudalnum miðjum er ég sannfærður um að það er bjart fram undan. — Góðar stundir.