151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Kæru landsmenn. Hér er ég kominn enn og aftur. Og ég vona að ykkur þyki það ekki leiðinlegt, mér finnst það mjög skemmtilegt. En það sem mig langar til að tala um núna þessa stuttu stund er að líta um öxl og velta fyrir mér: Hvað höfum við lært af fyrri kreppum? Hvernig sýnir ríkisstjórnin það núna að hún hafi lært eitthvað af efnahagshruninu 2008? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera varðandi verðbólguna, verðtryggð íbúðalán fjölskyldna? Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að passa sig að tryggja ekki eftir á, að byrgja brunninn áður en við dettum ofan í? Ekki neitt.

Hæstv. fjármálaráðherra og líka ágætur seðlabankastjóri hafa huggað okkur með því, þegar við köllum eftir því að belti og axlabönd verði sett á fjölskyldurnar í landinu til að koma í veg fyrir að þær skelfingar geti endurtekið sig sem áttu sér stað þegar 12.000–15.000 fjölskyldur voru bornar út af heimilum sínum og út á götu eftir síðasta efnahagshrun, að ekkert er verið að gera í sambandi við það, ekki neitt. Hvað er að því að setja belti og axlabönd á þessar fjölskyldur? Hvað er að því að koma í veg fyrir að við upplifum það sama hörmungarástand sem þá var? Flokkur fólksins segir: Það er ekkert að því. Og fyrst hæstv. fjármálaráðherra og seðlabankastjóri eru svo algjörlega vissir um það að það hafi ekkert upp á sig hvort sem er, að við stöndum svo vel, gjaldeyrisvaraforðinn sé í blóma og skuldirnar hafi verið greiddar niður — sem allt er satt, það er satt og rétt. Við stöndum miklu betur að vígi. Þar af leiðandi hefði okkur átt að vera í lófa lagið, og þessari ríkisstjórn, að koma í veg fyrir það með öllum ráðum að við þyrftum mögulega að ganga í gegnum sömu hörmungar og fjölskyldur þurftu að gera eftir efnahagshrunið 2008.

Svo er líka annað sem ég er að velkjast í vafa um hérna. Hvers vegna hefur þessi ríkisstjórn ekki leyft fátæku fólki, öryrkjum og öldruðum, að bjarga sér með því að vinna án þess að skerða það svoleiðis að þau geta ekki farið út að vinna, það hefur ekkert upp á sig? Hvers vegna er svo mikil harka hér að þessu fólki er hreinlega meinað að hjálpa sér sjálfu? Flokkur fólksins á ekkert einasta orð yfir því, enda höfum við komið með frumvarp eftir frumvarp og þingsályktunartillögu eftir þingsályktunartillögu sem allar lúta að því að taka utan um þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Og hvað hefur þessi ríkisstjórn gert? Fellt þær allar.

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Það er ekki að furða þó að maður sé nánast pass. Það er ekki að furða þó að maður standi hér og sé látinn heyra það stundum. Hvað hafið þið sosum gert? Þið sem eruð eins og gapuxar hér og lofið öllu fögru sjálf? Og hvað hafið þið svo sem gert? Ég segi við þá hina sömu sem eru það grænir að spyrja svona spurninga: Hvað í ósköpunum eigum við að gera, pínulítill þingflokkur í stjórnarandstöðu? Ef þið viljið að við gerum eitthvað þá skuluð þið kjósa okkur næst. Og það get ég algjörlega svarið, eins og ég stend hér og nú, að með okkur við stýrið þá myndi ástandið aldrei verða eins og það er hjá fátækum Íslendingum í dag. Aldrei.