151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

málefni eldri borgara og öryrkja.

[10:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins var að álykta, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Öryrkjabandalagsins krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína gagnvart lífskjörum fatlaðs og langveiks fólks og bæti kjör okkar án tafar. Skömm ríkisstjórnarinnar er að halda okkur í fátækt og skýla sér á bakvið Covid og slæmt efnahagsástand.“

Þá segir einnig í ályktuninni:

„Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga ákveðið að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör okkar. Sístækkandi hópur öryrkja býr við sárafátækt.“

25.000 milljónir tókst Samtökum atvinnulífsins að kreista út með krókódílatárum. Á sama tíma voru 25 milljónir að skila sér í mataraðstoð. Á sama tíma þurftu 50 manns frá að hverfa og fengu enga mataraðstoð. Á sama tíma er fólk heima eftir tíu daga í mánuðinum matarlaust og getur ekki einu sinni farið í raðir. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er ekki kominn tími til að segja við þessa einstaklinga að þeirra tími sé kominn og þau eigi ekki að bíða lengur? Eða hvenær í ósköpunum er þeirra tími kominn? Hann var ekki kominn í góðærinu. Er hann ekki kominn núna? Ég spyr: Er það virkilega metnaður þessarar ríkisstjórnar að verja þetta ástand, verja það að fólk eigi ekki fyrir mat, að verja það að fólk þurfi að fara í biðraðir eftir mat, að verja það að einhverjir séu heima og eigi kannski ekkert nema smá lýsi eða maltdós í ísskápnum?

Er ekki kominn tími til að þessir einstaklingar fái lífskjarasamning, þó ekki væri nema bara það? Hvers vegna í ósköpunum fær þessi hópur ekki lífskjarasamning eins og allir aðrir hafa fengið? Ef það stendur ekki til þá hlýtur ráðherra að geta svarað því hvort það sé út af einhverju, eða eru ekki til peningar? Ef við horfum á þetta í samhengi við það sem á að fara að eyða út af Covid eru það gífurlegir fjármunir og (Forseti hringir.) 1–2% af þeim hljóta að geta farið í vasa hjá þessum einstaklingum.