Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

málefni eldri borgara og öryrkja.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Mig langar aðeins að fara yfir það sem gert hefur verið á þessu kjörtímabili þar sem framlög til málefna örorku hafa aukist úr 62 milljörðum, að raunvirði, í tæplega 80 milljarða. Auðvitað er það að einhverju leyti vegna lýðfræðilegra breytinga en líka vegna hækkana sem hafa orðið. Þar má nefna sérstakt framlag sem Alþingi ákvað að verja til að draga úr skerðingum á örorkulífeyrisþega og þar með að koma til móts við eina af þeim kröfum sem hefur verið hvað háværust í málflutningi þeirra, eðlilega. Sömuleiðis höfum við í öllum aðgerðum okkar, allt kjörtímabilið, forgangsraðað í þágu tekjulægri hópa.

Ég vil nefna barnabætur. Ég vil nefna breytingar á skattkerfi sem skila skattalækkunum fyrst og fremst til tekjulægstu hópanna. Ég vil nefna greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu sem við ræddum hér árum saman og höfum núna tekið stór skref til að draga úr kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega með áherslu á örorkulífeyrisþega og aldraða. Tannlæknakostnaðurinn sem hafði ekki verið endurskoðaður síðan 2004, þar var loksins gripið til aðgerða. Síðan vil ég nefna það síðasta sem lýtur að öldruðum, þ.e. nýjan viðbótarstuðning til þeirra sem höllustum fæti standa í þeirra hópi. Hann byggir á mjög vandaðri vinnu sem unnin var með eldri borgurum við það að greina hverjir það væru sem stæðu verst. Það er alveg sannanlegt að sú ríkisstjórn sem hér sat 2013–2016 réðst í mjög stórtækar breytingar og jók mjög framlög til aldraðra á sínum tíma með lagabreytingum sem voru samþykktar árið 2016. Fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var síðan að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna, ráðast í breytingar sem varða kostnað í heilbrigðiskerfinu og núna síðast að koma með þennan félagslega viðbótarstuðning

Eftir stendur auðvitað að ekki hefur verið gerð sú breyting á örorkulífeyriskerfinu sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra lagði upp með í upphafi kjörtímabils. Ég tel mjög mikilvægt að ráðist verði í slíkar breytingar til þess einmitt að við getum mætt þeim sem (Forseti hringir.) höllustum fæti standa innan þess kerfis.