Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

málefni eldri borgara og öryrkja.

[10:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Það er rétt sem hún segir, en staðreyndin blasir við: Fólk borðar ekkert fyrir þetta, það er jafn svangt og fær eftir sem áður neitun í biðröð eftir mat. Það er jafn slæmt að vera heima þegar það á ekki mat í ísskápnum. Ég spyr og hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því enn: Hvers vegna í ósköpunum er þetta eini hópurinn sem fær ekki lífskjarasamninga? Hvers vegna í ósköpunum er hægt að verja lífskjarasamningana með kjafti og klóm og láta Samtök atvinnulífsins fá ótakmarkaða peninga en ekki hægt að setja krónu til þessa hóps?

Hæstv. forsætisráðherra talar um að minnka skerðingar. Kerfið er svo gjörsamlega arfavitlaust að við það að minnka skerðingar tapar fólk peningum, þá eru bara teknar af því húsaleigubætur eða einhver annar bótaflokkur og fólk stendur illa og jafnvel verr á eftir. Það eru mörg dæmi um það. Þess vegna segi ég: Það er kominn tími til að svara því í eitt skipti fyrir öll af hverju þessi hópur fær ekki leiðréttingu launa eins og allir aðrir. Og hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að taka utan um þennan hóp þannig að hann þurfi að lágmarki ekki að standa í biðröð eftir mat?