Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

málefni eldri borgara og öryrkja.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég vil minna á að í fjárlagafrumvarpinu kemur skýrt fram að bætur almannatrygginga hækka um 3,6% um áramótin sem byggist á mati á áætluðum meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaði í heild fyrir árið 2021. Það er í samræmi við 69. gr. laga um almannatryggingar þar sem kveðið er á um að þessar bætur skuli breytast árlega og taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en samkvæmt neysluvísitölu. Þetta byggir á þessu mati.

En síðan hlýt ég að spyrja þegar hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kemur upp og segir að ríkisstjórnin láti Samtök atvinnulífsins fá ótakmarkaða fjármuni: Hvað á hv. þingmaður við? Telur hv. þingmaður að of langt sé í því gengið að tryggja störf í þessu landi, að skapa störf í þessu landi, að greiða fyrir atvinnulífinu þannig að fólkið í landinu geti haldið áfram að sækja sér vinnu? Telur hv. þingmaður of langt gengið í því? Telur hv. þingmaður að þetta snúist um einhverja aðila sem starfa hjá Samtökum atvinnulífsins? Það er nefnilega ekki þannig. Þetta snýst um mat á heildarhagsmunum samfélagsins og hvernig við getum haldið áfram að skapa verðmæti í samfélaginu, eitthvað sem ég hefði trúað að allir hv. þingmenn ættu að geta sammælst um, og komið okkur sameiginlega í gegnum þennan skafl.

Um það snýst þetta jú, að við höldum áfram, hvort sem það er að veiða fisk eða skapa nýja þekkingu og aukin verðmæti til útflutnings, hvort sem það snýst um að veita þjónustu eða selja ferðir eða búa til matvæli. (Forseti hringir.) Þetta er það sem þetta snýst um. Er eðlilegt að Alþingi og stjórnvöld mæti atvinnulífinu á svona tímum? Auðvitað er það eðlilegt.