151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:24]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Get ég þá skilið hæstv. ráðherra þannig að ef atvinnulífið, nýsköpunargeirinn o.s.frv. telja sig geta fundið þessi verkefni þá sé hæstv. ráðherra til í að auka hér talsvert í? Ég veit að þetta þurfa að vera raunhæf og arðbær verkefni en af þeim er nóg. Ég velti fyrir mér hvort við ættum ekki að skoða það vel, í meðförum nefndarinnar, að auka fjárfestingarpakkann. Mér finnst 1% aukning á landsframleiðslu í fjárfestingarátak of lítið til að mæta þessari djúpu kreppu sem allir eru meðvitaðir um að er mjög alvarleg. Við sjáum að viðbótin í nýsköpunarmál er sömuleiðis einungis 0,3% af landsframleiðslu. Aftur ítreka ég að nýsköpun er töfraorð í kreppu og Tækniþróunarsjóður, svo að dæmi sé tekið, hefur talið að fjöldamörg verkefni uppfylli hæstu einkunn þess sjóðs en það eina sem strandar á í þeim verkefnum er að fjármagnið vantar.

Ég velti fyrir mér hvort ráðherra sé ekki til í að koma með okkur í þann leiðangur að bæta aðeins í þegar kemur að fjárfestingunum. Við hæstv. ráðherra erum sammála um að það þarf að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað og til þess þurfum við að beita ríkisfjármálunum með myndarlegri hætti en hér er gert.