151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er talað um að hækka eigi lægstu bætur samkvæmt launaþróun. Ef við tökum prósentuna í lífskjarasamningunum er það rúmlega 7% hækkun á lægstu laun. En sú launaþróun sem ráðherra er að fara eftir um næstu áramót er 3,6%. Ég spyr: Hvernig er þetta reiknað? Hvernig fær hann það út að það sé nákvæmlega það sama fyrir lífeyrisþegana og lífskjarasamningurinn kveður á um, þegar það ætti að vera akkúrat helmingi meira? Ég spyr hvort hann sé til í að leiðrétta það á þeim forsendum að verðbólgan er núna um 3,5% og gengið hefur fallið gífurlega þannig að allt hefur stórhækkað.