151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara alrangt að við séum að boða að 35 milljarðar séu nóg. Við erum að segja að 260 milljarðar séu það sem þarf. 260 milljarðar, ekki 35. Það er bara fjárfestingin. Við segjum: Leyfum ríkissjóði að fara í halla þrátt fyrir að tekjurnar hrynji. Berum það saman við aðra efnahagsstefnu sem var prófuð fyrir tíu árum þar sem menn fóru í fjöldann allan af skattaaðgerðum til þess að endurheimta tekjur. Þeir breyttu tekjuskatti einstaklinga, hækkuðu tryggingagjaldið, bjuggu til raforkuskatt og ýmsa aðra skatta til þess að ná inn tekjum fyrir ríkissjóð. Það er efnahagsaðgerð hjá okkur að gera það ekki. 260 milljarðar eru meira en við höfum áður séð og við erum sömuleiðis að fara í ýmsar sértækar aðgerðir eins og hlutabótaleiðina og annað þess háttar.

Varðandi fjárfestinguna sérstaklega, af því að hún er tekin hérna út úr, 35 milljarðarnir, þá held ég að menn verði aðeins að hugsa hversu miklu sé hægt að koma út á tólf mánaða tímabili ef við tölum t.d. um verklegar framkvæmdir. (Forseti hringir.) Hverju trúir þingmaðurinn að hægt sé að koma út í gegnum pípur ríkissjóðs í verklegum framkvæmdum (Forseti hringir.) á tólf mánuðum?