151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við getum lagt fram listann yfir verkefni sem eru á bak við þessar tölur. Eins og ég nefndi hér áður þá myndi það í sumum tilvikum ekki falla að öllu leyti að skilgreiningu Hagstofunnar í þjóðhagsreikningum um fjárfestingu. En ég segi það fullum fetum að það er mikil áskorun að koma miklu meira út í framkvæmdafé. Við höfum t.d. séð það bara við byggingu á Landspítalanum, það hefur gengið aðeins hægar að koma fyrir öllu því sem við höfum fjármagnað á undanförnum árum. Ég ætla bara að minna á það að við höfum farið þá leið að reyna að forgangsraða í þágu verkefna sem eru tilbúin, í það sem er raunhæft að fara af stað með, í verkefni sem eru mannaflsfrek og skila aukinni framleiðni. Þetta eru þættir sem við höfum sérstaklega horft til. Þetta eru verklegu framkvæmdirnar. Svo eru öll hin málin sem við lítum á sem fjárfestingu í samfélaginu sem eru (Forseti hringir.) innspýtingin í samkeppnissjóðina, auknar endurgreiðslur og annað þess háttar, (Forseti hringir.) sem við höfum leyft okkur að tala um sem fjárfestingu í þessu samhengi.