151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að Ölfusárbrúin sé dæmi um verkefni sem við ættum að reyna að ýta á, ágætisdæmi hjá hv. þingmanni. Að hve miklu leyti við ættum að bæta jafnvel enn frekar við með fjáraukalögum get ég ekki lagt mat á, en við höfum sýnt það í verki að við höfum ríkan vilja til að stórefla stuðninginn þarna. Við höfum komið með fjárauka þegar á þessu ári og erum aftur að auka í fjárlagafrumvarpi og í fjármálaáætlun á næstu árum. Menn þurfa aðeins að gæta sín á því að vera ekki með mjög mismunandi fjármögnun í samkeppnissjóðina frá einu ári til annars heldur að hafa frekar stigvaxandi vöxt og leyfa fjármögnuninni að lifa í einhver ár vegna þess að ella geta menn lent í vandasamri stöðu.

Svo vil ég bara minna aftur á að það er atvinnuvegafjárfesting á Íslandi sem skortir og við þurfum að eyða meiri tíma í að ræða hvað við getum gert til þess að fá fyrirtækin aftur til að fjárfesta. Það verður lagt fram sérstakt frumvarp um það hér á haustþingi en það er ekki opinbera fjárfestingin (Forseti hringir.) í sjálfu sér sem öskrar á mann eftir að þessi áform eru kynnt, heldur það að atvinnulífið er ekki að fjárfesta.