151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:11]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Tvær spurningar. Nei, ég er ekki að boða mismunandi veiðileyfagjald eftir stærð fyrirtækja. Mér fannst það bara liggja í hlutarins eðli að eftir því sem fyrirtæki eru stærri á þessum markaði eru þau með hærri kvótaheimildir og þá greiði þau hærra gjald fyrir þann aðgang. Ég tel að þessi lykilgrein sé aflögufær á þessum tímapunkti. Við þurfum að taka umræðuna um með hvaða hætti við fjármögnum það sem er fram undan og mér finnst einfaldlega að auðlindagjöld ættu að vera hærri og ekki bara í sjávarútvegi heldur líka t.d. í orkunni. Þetta eru sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar samkvæmt lögum og við sjáum að það gengur vel í útgerðinni og ekki síst í stórútgerðinni. Við erum með risavaxin fyrirtæki í sjávarútvegi, meira að segja á evrópska vísu, sem eru að hagnast, ekki bara af eigin hyggjuviti og skynsemi í rekstri heldur líka af nýtingu á þessari sameiginlegu auðlind.

Ég gat um þessar tvær tölur, arðgreiðslurnar eru 62 milljarðar á fimm árum og hagnaðurinn er 200 milljarðar á fimm árum. Bókfært eigið fé útgerðarinnar var 300 milljarðar í fyrra og hafði hækkað um 60% á fimm árum. Það er alltaf verið að tala um að staðan sé að versna. Hún er ekkert að versna í sjávarútvegi almennt séð. Menn fara alltaf fljótlega að tala um litlu útgerðirnar en ég er að fókusera á stórútgerðirnar, að þær greiði hæsta gjaldið, þannig að það sé alveg skýrt.

Varðandi atvinnuleysisbæturnar er það pólitísk sannfæring Samfylkingarinnar að við viljum hækka atvinnuleysisbætur. 270.000 kall eftir skatt er of lítið. Ef vantar upp á það þá höfum við eitthvað sem heitir skattar. Tryggingagjaldið er skattur. Við getum fjármagnað þetta með sköttum og lántökum. Nú vil ég gera það með lántökum. Við getum kannski mæst á miðri leið: Getum við ekki hækkað grunnatvinnuleysisbæturnar tímabundið, tekið það að láni, við skulum bara orða það þannig, svo að við getum hjálpað þessum hópi tímabundið? Það að ég vilji hækka atvinnuleysisbætur kemur ekkert í veg fyrir að ég geti barist fyrir því að laun hækki líka, en það sem Samfylkingin hefur lagt til núna er að við hækkum atvinnuleysisbætur um 10–15%. (Forseti hringir.) Þær væru enn þá lægri en lágmarkslaun þó að þið mynduð samþykkja okkar tillögur, sem ég vona svo sannarlega að þið gerið.