151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að færa það inn í umræðuna hér um sjávarútveginn að eftir því sem honum gengur betur þeim mun meiri skatta mun hann greiða. Hann greiðir það í gegnum tekjuskatt, í gegnum laun og launatengd gjöld, sem sagt í gegnum staðgreiðsluna. Það skilar sér ótrúlega mikið ef menn geta ráðið til sín fólk o.s.frv. Ég held að sú hugmynd að stóru fyrirtækin séu einhvern veginn betur aflögufær hljóti á endanum bitna á minni fyrirtækjunum ef menn ætla að vera með sambærilega álagningu áfram.

Varðandi atvinnuleysisbæturnar þá er ég bara að benda á að það er fullt af fólki sem vinnur allan daginn á þessum lægstu töxtum og er með ráðstöfunartekjur sem eru á því bili sem hv. þingmaður segir að séu algerlega óboðlegar fyrir atvinnulausa. Ef á sérstaklega að rétta hlut þeirra þá eru þeir komnir í sömu stöðu og fólk sem vinnur allan daginn og stendur skil á sínu. Auðvitað er það hrikaleg staða að verða atvinnulaus. En það sem við höfum gert til að koma til móts við þá hópa sem eru með starfsöryggi sitt í uppnámi er að fara fram með hlutabótaleiðina og bjarga þannig starfinu og viðhalda vinnusambandinu. Ég held að styrkur á uppsagnarfresti hafi líka verið mjög mikilvægur vegna þess að hann tryggði fullar efndir á öllum launatengdum gjöldum og uppsagnarfrestinum sjálfum. Svo höfum við verið að framlengja tekjutengda tímabilið. Þetta eru allt saman aðgerðir sem eru hugsaðar vegna þess að störf eru í uppnámi.

En það er mjög vandasamt og það er mjög varasamt að fara að hreyfa mikið við atvinnuleysisbótunum þannig að maður sé á endanum jafn settur og mögulega, ef menn ganga of langt, betur settur en fólk sem er að mæta til vinnu og skila öllu sínu með vinnuframlagi. Í mínum huga skiptir máli að það sitji meira eftir fyrir þá sem mæta til vinnunnar.