151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:25]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, eftirspurnin kemur en hún er ekki fyrir hendi núna. Þess vegna er ég að kalla eftir öflugri viðspyrnu. Ríkisstjórnin talar oft um viðspyrnu. Hún þarf að vera öflug. Hún þarf að vera kröftug. Og ég gat aðeins um það áðan. Í sumar hef ég verið að hlusta á hin ýmsu hlaðvörp um kreppuúrræði. Það var ótrúlega áhugavert. Hvort sem litið er til kreppunnar miklu, bankahrunsins eða annarra áfalla sem hagkerfið hefur lent í, var rauði þráðurinn hjá sérfræðingum að ein helstu mistökin sem ríkisstjórnir gera í slíkum krísum er að gera of lítið.

Hér var sagt mjög snemma að ríkisstjórnin ætlaði að gera frekar meira en minna. Gerum það. Gerum þá frekar aðeins meira en minna. Ég veit að það kemur að skuldadögum. Að sjálfsögðu veit ég það. Þess vegna kalla ég eftir fjárfestingu. Fjárfestum í okkur sjálfum og fjárfestum í fólki og fyrirtækjum. Við þurfum að koma hjólunum af stað núna. Skuldsetjum okkur. Ég veit að einu sinni mátti ekki nefna það orð hér. Jú, skuldsetjum okkur meira. Vextir eru t.d. lágir. Ólíkt bankahruninu skuldum við fyrst og fremst sjálfum okkur í dag.

Leggjum saman í þennan leiðangur, búum til nýjan iðnað og eflum þann iðnað sem fyrir er. Veðjum á kvikmyndageirann og sjónvarpsgeirann, veðjum á innlenda grænmetisframleiðslu, veðjum á hönnun, tölvuleikjaþróun, hvað eina sem fólki dettur í hug. Gerum fólki og fyrirtækjum kleift að komast upp úr þessum öldudal og taka viðspyrnuna með okkur. En þá vantar stundum herslumuninn. Það vantar opinbera umgjörð sem oft er í formi aðstoðar á tímapunkti sem þessum, hvort sem það er í gegnum Nýsköpunarsjóð eða annað sem við höfum. Nýtum þessi úrræði aðeins betur. 1% fjárfestingarátak er ekkert átak, herra forseti.