151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:30]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um upplýsingaóreiðu undanfarin ár og fer hún virkilega vaxandi en merkilega lítið hefur verið gert til að bregðast við henni með þeim verkfærum sem eru þó fyrir hendi.

Í 2. mgr. 13. gr. upplýsingalaga er kveðið á um eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti.“

Þetta hefur ekki verið gert þrátt fyrir að lögin hafi verið sett árið 2012. Þegar frumgögn liggja fyrir er erfiðara að bulla með sannfærandi hætti. Þannig hefði t.d. hæstv. dómsmálaráðherra ekki getað haldið því fram í svari við spurningu minni um viðhald á þyrlum Landhelgisgæslunnar nýverið að nákvæmar tölur liggi ekki fyrir um slíkt, enda eru viðhaldsdagbækur loftfara mjög ítarlegar í samræmi við Part-M EASA-reglugerðirnar. En birting gagna er út af fyrir sig ekki nóg til að sporna við upplýsingaóreiðu. Það er líka mikilvægt að fólk kunni að nota gögnin. Þannig hefur t.d. verið gagnrýnt árum saman að eingöngu eitt efnahagslíkan er til staðar fyrir Ísland, en það líkan er af tagi svokallaðs slembijafnvægislíkans eða á ensku, með leyfi forseta: „general stochastic equilibrium model“.

Slík líkön eru höfð að háði í fræðunum fyrir að hafa mjög takmarkað spágildi, en mér skilst að verið sé að reyna að bæta þetta líkan núna. Þetta líkan er m.a. lagt til grundvallar fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem byggir auðvitað á jafn miklum skýjaborgum og fyrri ár, að hluta til vegna lélegra spágetu líkansins. Og auðvitað er þetta kannski enn þá verra þegar horft er til núverandi ástands þar sem enn þá meiri óreiða er í hagkerfinu.

Viðbrögð við upplýsingaóreiðu þurfa að vera tvenns konar: Aukin krafa um gagnsæi og samvinna um að vinna betur úr þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Það er algjörlega gagnslaust að reyna að vinna áróðursstríð ef við getum ekki unnið stríð gegn eigin vanþekkingu.