151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meginskýringin á því að á síðasta ári áætlunarinnar eru lægri fjárhæðir en þær sem eru hæstar á áætlunartímabilinu er sú að þá lýkur tímabundnu mjög kraftmiklu átaki. Ef liðir eins og nýsköpun, rannsóknir og þróun eru skoðaðir yfir aðeins lengra tímabil sjáum við að á síðasta ári áætlunarinnar liggur við að framlag til nýsköpunar hafi u.þ.b. fjórfaldast, ef við skoðum t.d. frá árinu 2005. Það er staðreynd að við höfum ekki bara verið að stórauka framlög í nýsköpun heldur erum við komin með viðbótarátak núna þegar kreppir sérstaklega að. Ef við ætluðum að nota þá nálgun sem hv. þingmaður gerir þá ættum við að taka alla súpupeningana í einn pott og dreifa þeim þannig að það komi minnst fyrst og hækka síðan alltaf á hverju ári þannig að við séum með mest síðast. En það er ekki rétta strategían. Það er ekki rétta nálgunin. Það er ekki rétta stefnan við þessar aðstæður.