151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það eru 35 málefnasvið og flest þeirra fá hækkun á þessum fimm árum, fá sem sagt meira eftir fimm ár en nú er. Ég flaggaði þeim sex málefnasviðum sem fá lækkun. Það er það sem ég er að gagnrýna. Af hverju fá þessi málefnasvið lækkun á meðan önnur fá hækkun? Af hverju fá menning og listir lækkun? Af hverju fá samgöngumál lækkun? Af hverju fær nýsköpunin lækkun? Á sama tíma fær margt annað í öðrum málum hækkun. Ég er ekki að halda því fram að allt fái lækkun eftir fimm ár, svo er ekki, það eru þess sex málefnasvið sem ég hef áhyggjur af. Ég hef ítrekað deilt á ráðherra að hér sé ekki gert nóg. Fjárfestingarátak sem hann nefndi er kallað fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar. Það nemur einungis 1% af landsframleiðslu. Það dugar ekki til að mæta þessari djúpu kreppu. Viðbótin í nýsköpun er einungis 0,3% af landsframleiðslu. Af hverju tökum við ekki þá pólitísku ákvörðun að setja enn meiri fjármuni í nýsköpun, fullfjármögnum Tækniþróunarsjóð, hækkum endurgreiðsluhlutfall til kvikmynda- og sjónvarpsgerðar o.s.frv.? (Forseti hringir.) Hugmyndirnar vantar ekki en það vantar fjármagnið, herra forseti.