151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við skoðum nýsköpunina sérstaklega, af því að hún er eitt af þeim sviðum sem hv. þingmaður vill leggja áherslu á, þá vorum við með í upphafi kjörtímabilsins rétt um 15 milljarða eyrnamerkta nýsköpun og þróun og við verðum á síðasta ári áætlunarinnar með 20 milljarða. Það er 5 milljarða aukning. Það er gríðarleg aukning ofan á 15 milljarða. Hins vegar, ef við tökum þau árin sem sýna mesta hækkun, er það rétt að á lokaárunum erum við að draga úr tímabundna átakinu.

Svo verð ég að furða mig á því að hv. þingmaður tali svona um fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar upp á rúma 30 milljarða. 30 milljarðar er engin smátala og við erum að tala um að koma henni út á 12 mánuðum. Hann talar um þetta eins og það sé léttvægt, 1% af landsframleiðslu. Þetta er bara stórmál. Það er stórmál að fara í verklegar framkvæmdir fyrir hartnær 3 milljarða í hverjum mánuði að jafnaði. Það er stórmál og að segja að það sé ekkert mál að vippa því upp í 2% af landsframleiðslu og láta í það skína að 3% væri betra, að við gætum bara bætt við 10 milljörðum á mánuði, er ekki rétt nálgun.