151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég þeirrar skoðunar að það ríki metnaðarleysi í þessari áætlun þegar kemur að ráðdeildarsemi í ríkisfjármálum. Ekki hefur verið mikið um hagræðingarkröfu innan Stjórnarráðsins á síðustu árum og orðið löngu tímabært að ráðast í uppstokkun á opinbera kerfinu og draga úr umsvifum hins opinbera. Það verður að hagræða í ríkisrekstrinum við þessar aðstæður, það er alveg ljóst, og hægt er að gera það auðveldlega án þess að það bitni á þeim sem nú þurfa aðstoð. Ef ekki er tilefni til að spara núna í ríkisfjármálunum þegar hallinn á rekstri ríkissjóðs er í sögulegu hámarki, er það aldrei.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri blóðug sóun úti um allt í opinbera kerfinu í viðtalsþætti í fjölmiðlum fyrir skömmu. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvar sér þess merki í þessari áætlun að það eigi að stöðva þessa blóðugu sóun í opinbera kerfinu?